Þrefalt fleiri ferðamenn í ár en í fyrra

mbl.is/Einar Falur

Tæplega þrefalt fleiri erlendir ferðamenn komu til landsins um Keflavíkurflugvöll í sumar heldur en í fyrrasumar en voru þeir nú um 304 þúsund talsins. Komu langflestir frá Bandaríkjunum (43%), næstflestir frá Þýskalandi (9%), þar á eftir er Pólland (7%) en Bretland og Frakkland fylgja fast á eftir með 5% komufarþega frá hvoru landinu.

Flestir komu til landsins til þess að fara í frí (90%), 4% komu vegna heimsókna til vina eða ættingja en 2% vegna heilsu, náms og o.fl.

Þá var meðaldvalarlengd ferðalanga 9,1 gistinótt og áttu Þjóðverjar til að dvelja lengst, eða í 11 gistinætur en Bretar styst eða í 7,8 gistinætur. Þá dvöldu Bandaríkjamenn hér á landi í 8,1 nótt að meðaltali.

Brottfarir erlendra farþega að sumri eru nú mun færri en fyrir faraldur. Árið 2020 fóru þær í sögulegt lágmark og námu einungis 115.319 en nú stóðu þær í 304.371. Árið 2019 töldu þær 678.080 en 803.831 árið 2018 og 777.889 árið 2017.

Nærri tveimur af hverjum fimm gistinóttum í skráðri gistingu samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar var eytt á hótelum, um 17% á gistiheimilum og tæplega helming í annars konar gistingu en samtals voru skráðar gistinætur síðastliðið sumar tæplega 2,7 milljónir talsins. Voru þær 58% fleiri en í fyrrasumar og um fjórðungi færri en sumarið 2019, þegar þær mældust um 3,5 milljón talsins.

Nýting á hótelherbergjum var hæst á landsvísu í ágústmánuði eða 76% en nýtingin mældist hæst á Austurlandi, eða 83%.

veronika@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert