Uppbygging í Keldum ávísun á „stóra stopp“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppbyggingu á reitum borgarinnar verða …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppbyggingu á reitum borgarinnar verða að haldast hönd í hönd við framkvæmd borgarlínu. mbl.is/Hari

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við mbl.is að ekki sé unnt að flýta uppbyggingu íbúabyggðar á ýmsum svæðum borgarinnar án þess að framkvæmd borgarlínu sé flýtt fyrst. Meginuppbyggingin verði á svæðum „þar sem eru og verða öflugar almenningssamgöngur“.

Eins og fjallað var um í dag segir Dagur að uppbygging íbúða í Keldnalandi komi ekki til greina fyrr en borgarlínan sé komin í gagnið. Umferðin á Miklubraut ráði einfaldlega ekki við meira.

Hann segir þetta einnig vera stöðuna er varðar flýtingu á uppbyggingu á öðrum reitum. Borgarlínan sé grundvallarforsenda.

Fjöldi svæða sem næst eru í framkvæmd

„Tilkoma borgarlínunnar gerir okkur kleift að þróa borgina á nýjan, spennandi og grænan hátt. Við erum með fjölda svæða sem eru næst í framkvæmd og sum hver búin að vera í skipulagi árum saman. Það er mjög mikilvægt að allir sameinist um að þróa og byggja hratt.“

Hann segir þá enn fremur að hugmyndir um að horfa á ný svæði eins og Keldur, sem ekki ganga upp vegna umferðarmála, ekki vera neitt nema „ávísun á stóra stopp“ í þróun borgarinnar.

Þarf að sýna Ragnari plönin

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir í samtali við Morgunblaðið í dag: „Ég get bara ekki séð hvernig í ósköpunum meirihlutinn í borginni ætti að geta staðið í vegi fyrir því að það sé farið í að flýta skipulagi og uppbyggingu á t.d. Keldum eða því svæði í Úlfarsárdal sem er nánast tilbúið til uppbyggingar.“

Spurður út í þessi ummæli Ragnars segir Dagur:

„Já við Ragnar þurfum greinilega að setjast niður og ég þarf bara að sýna honum plönin. Við gerum það reglulega og höfum ávallt gagn af.“

Er það þá rétt skilið að öll áform um að flýta uppbyggingu á reitum borgarinnar þurfi að bíða ef ekki er unnt að flýta borgarlínunni fyrst?

„Já það er rétt. Það þarf öflugri almenningssamgöngur til þess að uppbygging á þessum svæðum gangi upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert