Erfitt að standa gegn afléttingum

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans segist vonast til þess að spítalinn sleppi vel í kjölfar afléttinga sem ríkisstjórnin boðaði í morgun, þrátt fyrir að þung staða sé inni á spítalanum og að há hlutfallstala af jákvæðum sýnum í einkennasýnatökum síðasta sólarhringinn sé rautt flagg.

Hann segir að tíminn verði að leiða það í ljós.

Már segir að þrátt fyrir að vísað hafi verið til áhættumats spítalans hafi á þeim tímapunkti  verið um 20 til 40 ný tilfelli á dag en á síðasta sólarhring voru þau 80 talsins, sem kann að vera sérstakt frávik.

„Þetta er náttúrulega svolítið rautt flagg, bæði þessi fjöldi og svo þetta háa hlutfall í einkennasýnum, plús það að við erum alltaf með 100 prósent nýtingu á legudeildum og alltaf með á bilinu 15 til 25 og jafnvel fleiri einstaklinga á bráðamóttökunni.“

„Voðalega erfið staða“

Finnst þér afléttingarnar ótímabærar eins og staðan er núna á spítalanum?

„Ég held að þetta sé voðalega erfið staða, að hafa haft svona tiltölulega viðráðanlegt ástand með tilliti til Covid og þær kringumstæður sem eru í nágrannalöndum þar sem að virðist vera lítið um aðgerðir og tiltölulega lítið um smit.“

„Þannig að það er voðalega erfitt að standa gegn þessu og kannski verðum við bara sem samfélag að reyna að láta á þetta reyna.“

Grímuskyldu verður aflétt að frá­töld­um sér­stök­um regl­um á heil­brigðis­stofn­un­um.
Grímuskyldu verður aflétt að frá­töld­um sér­stök­um regl­um á heil­brigðis­stofn­un­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefurðu áhyggjur af því að bylgjan eftir afléttingarnar um mánaðarmótin júní/júlí endurtaki sig?

„Ég held að það sé innan marka þess mögulega að þetta geti endurtekið sig, ég er ekki persónulega stressaður yfir því.“

Hann segir að ef horft sé á stöðuna vitsmunalega séð sé það innan marka þess mögulega að það komi upp fjöldi nýrra tilfella, þar sem ekki allir eru bólusettir.

„Ég held líka bara að hvert sem að maður fer að þá er fólk búið að kasta fyrir róða öllum verjum, maður er eiginlega bara eins og álfur úti á hól ef að maður er með grímu úti í búð. Ég held að við eigum ennþá að reyna að brýna fyrir fólki að það getur hugsanlega komið holskefla aftur, vonandi ekki en við ráðum svolítið um það sjálf hvernig við hegðum okkur.“

Fólk ætti að fara varlega

Þér finnst fólk þá ekki vera að huga nógu vel að persónubundnum sóttvörnum?

„Nei, ég meina það er alveg sama hvert þú ferð það eru nánast allir grímulausir og þannig að fólk er eiginlega að hegða sér eins og það sé enginn vá.“

Már segist telja að það séu margþættar ástæður fyrir því að fólk ætti að fara varlega en að ein af þeim sé að nú sé tímabil árstíðabundnu sýkinga að ganga í garð.

„Okkur tókst mjög vel að draga úr þeim með hreinlæti og grímunotkun á seinastliðnum tveimur árum og af hverju skyldum við ekki vilja gera það áfram, ég bara spyr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina