Hraðpróf notuð við 2000 manna viðburði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnarfundi loknum í dag. mbl.is/Unnur Karen

„Mitt mat er það að þetta sé skynsamleg leið sem heilbrigðisráðherra velur að fara, að gera þetta í tveimur áföngum. Ég held að það sé samstaða um þessa stefnu, einhverjir hefðu eflaust viljað gera þetta hraðar en ég styð þessa leið heilbrigðisráðherra,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, um ákvörðum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afléttingar á sóttvaraaðgerðum stjórnvalda sem tilkynnt var um að loknum ríkisstjórnarfundi. 

Hún segir að lærdómur hafi verið dreginn af því að ráðast bratt í afléttingar, þegar öllum takmörkunum og sóttvarnaaðgerðum var aflétt á einu bretti í júlí. Sá lærdómur sé að skynsamlegar sé að ráðast í afléttingar í skrefum. 

„Mér finnst skynsamlegt að draga lærdóm af fyrri reynslu í þessum málum,“ segir Katrín. 

Gerið þið ráð fyrir að notast þurfi við hraðpróf við 2000 manna viðburði?

„Já og þetta er í rauninni tvennt sem stendur út, það er í fyrsta lagi opnunartími bara og veitingahúsa. Við sjáum það frá bæði gögnum og fréttaflutningi frá Evrópu að þetta er eitt af því sem þykir raunverulega hafa áhrif. Hins vegar er það með hraðpróf inn í stærri viðburði. Þá erum við að heimfæra það sem hefur gilt á framhaldsskólaböllum yfir í þessa almennu reglu.“

mbl.is