Ísland efst í alþjóðlegum samanburði lífeyriskerfa

Íslenska lífeyriskerfið er í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að og birt var í morgun.

Ísland er nú í fyrsta sinn með í þessum samanburði lífeyriskerfa í alls 43 ríkjum. Í næstu sætum fyrir neðan eru Holland og Danmörk, að því er segir á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.

Þessi þrjú ríki eru þau einu sem lenda í efsta flokki vísitölunnar þegar lögð eru saman stig fyrir hvern einstakan þátt lífeyriskerfanna.

„Ísland fær góða útkomu í mörgum þáttum en ekki mjög slaka útkomu í neinum þætti. Í því liggur ágæt heildarútkoma íslenska lífeyriskerfisins,“ segir á vefsíðunni.  

Samanburður lífeyriskerfanna byggist annars vegar á talnaefni frá Efnahags- og framfarastofnunni – OECD og öðrum fjölþjóðastofnunum og gagnabönkum og hins vegar á upplýsingum sem sérfræðingar hjá Mercer og fleiri hafa aflað í viðkomandi ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert