Pálmatrjám í Vogabyggð fækkað úr tveimur í eitt

Svona sá listamaðurinn fyrir sér að pálmatrén myndu líta út …
Svona sá listamaðurinn fyrir sér að pálmatrén myndu líta út í turnlaga gróðurhúsum. Tölvumynd/Reykjavik.is

Ákveðið hefur verið að fækka fyrirhuguðum pálmatrám í Vogabyggð úr tveimur í eitt. Er þetta gert í samráði við höfund listaverksins. Hins vegar stóðst verkið raunhæfismat sem framkvæmt var í kjölfar samþykktar borgarráðs.

Pálmatré, tillaga þýska listamannsins Karin Sander, bar sigur úr býtum í samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt á Kjarvalsstöðum 29. janúar 2019. Verkið gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja.

Niðurstaða dómnefndar vakti athygli og umtal og ýmsir létu þá skoðun í ljósi að pálmatré myndu ekki þrífast við þessar aðstæður á Íslandi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu að áformin yrðu endurskoðuð enda yrði kostnaðurinn við verkið gríðarlegur, eða 140 milljónir króna.

Í ágúst 2020 sagði Morgunblaðið frá því að borgarráð hefði ákveðið að fram færi raunhæfismat á tillögunni.

Niðurstaða matsnefndar var sú að hægt væri að rækta pálmatré við þær aðstæður sem ríkja í Vogabyggð. Þetta upplýsir Huld Ingimarsdóttir, skrifstofustjóri fjármála og hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, í skriflegu svari til Morgunblaðsins.

„Ljóst er þó að raunhæfismatið sem fylgdi tillögunni er of lágt, en uppfært kostnaðarmat er enn í skoðun og í samráði við höfund verksins er tillagan sú að vera með eitt tré á torginu í stað tveggja,“ segir Huld.

Kostnaðurinn verður því væntanlega lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.

Þrettán tillögur bárust í samkeppninni á sínum tíma og var það einróma niðurstaða dómnefndarinnar að velja tillöguna Pálmatré.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert