„Sjaldan séð jafn auman málflutning“

Ólöf Helga Ad­olfs­dótt­ir, sem starfaði sem trúnaðarmaður í hlaðdeild á …
Ólöf Helga Ad­olfs­dótt­ir, sem starfaði sem trúnaðarmaður í hlaðdeild á Reykja­vík­ur­flug­velli, mætti í félagsdóm nú síðdegis. mbl.is/Unnur Karen

Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var stefnt fyrir hönd samtakanna í dag fyrir félagsdómi vegna uppsagnar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarmanns Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. SA hafa varið ákvörðun flugfélagsins og reka málið fyrir hönd fyrirtækisins.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsmála hjá Eflingu, segir í samtali við mbl.is að hann hafi „sjaldan séð jafn auman málflutning af hálfu andstæðings í dómsmáli“.

Halldór Benjamín vildi ekki tjá sig um þessa gagnrýni í samtali við blaðamann. „Ég ætla ekki að elta ólar við gífuryrði Viðars Þorsteinssonar.“

Ólöfu var sagt upp störfum hjá Icelandair í ágústmánuði þegar hún stóð í viðræðum við félagið um réttindamál starfsmanna en hún hefur sinnt störfum sem trúnaðarmaður frá 2018 og sem öryggistrúnaðarmaður Vinnueftirlitsins frá 2020.

Í stefnunni var rökstutt með vísun í gögn sem komu meðal annars frá starfsfólki Icelandair og SA, að uppsögnin hafi verið í beinum tengslum við störf Ólafar sem trúnaðarmaður. Slík uppsögn er óheimil samkvæmt lögum 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Farið er fram á að uppsögn Ólafar hjá félaginu verði dæmd ólögmæt en Icelandair og SA hafa frest til 2. desembers til að leggja fram gögn.

Skýrt tilvik um augljóst brot

Viðar segist í samtali við mbl.is varla hafa séð jafn skýrt tilvik um augljóst brot á starfsmanni, eins og í þessu tilfelli. 

„Það var engin ástæða gefin í uppsagnarbréfinu. Svo voru einhverjar ástæður tilkynntar yfir starfsmannahópinn í heild að henni fjarstaddri og þar var hún sökuð um trúnaðarbrest. Það er ekkert í gögnunum eða þessum málflutningi sem stenst neina skoðun. Það er ekkert samræmi í þessu. Ef að samskiptaörðugleikar voru svona alvarlegir hvers vegna var ekki búið að veita starfsmanni áminningu? Við þessu eru engin svör.“

Þingfesting var í dag klukkan 14:30 í húsnæði Félagsdóms í …
Þingfesting var í dag klukkan 14:30 í húsnæði Félagsdóms í Kópavogi. Var Ólöf Helga viðstödd hana ásamt Karli Ó. Karlssyni lögmanni Eflingar og Viðari Þorsteinssyni framkvæmdastjóra félagsmála hjá Eflingu. Ljósmynd/Efling

Að sögn Viðars hefur hann „sjaldan séð jafn auman málflutning af hálfu andstæðings í dómsmáli“. Hann segir málið ekki eingöngu snúast um réttindi trúnaðarmanna heldur einnig traust og eðlilegar samskiptavenjur á atvinnumarkaði.

Bjartsýn á niðurstöðuna

Í samtali við mbl.is kveðst Ólöf bjartsýn á framhaldið og vonar hún að því ljúki á farsælan máta. Heldur hún enn í vonina að Icelandair dragi uppsögnina til baka og að hún geti gengið í sitt gamla starf á ný.

„Næstu skref er bara að vona að Icelandair svari. Mögulega kannski bjóða mér starfið aftur ef þeir sjá að sér. Ég er enn að vona að þeir komi með einhver svör,“ segir Ólöf.

Hefur þú fengið einhverjar nákvæmari skýringar á uppsögninni frá Icelandair?

„Lokaskýringin var í raun samskiptaörðugleikar. Að ég væri erfið í samskiptum og hvöss í tali, og að samstarfsfélagar mínir væru orðnir hræddir við mig. Það er það síðasta sem ég hef heyrt.“

mbl.is