„Það er vitað hverjir fóru inn og út úr salnum“

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgir Ármannsson ræða saman á fundinum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgir Ármannsson ræða saman á fundinum. mbl.is/Theódór Kr. Þórðarson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata og nefndarmaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis, segir engan vafa liggja á því hverjir það voru sem komu og fóru inn í salinn þar sem talning kjörbréfa Norðvesturkjördæmis fór fram að loknum þingkosningum.

Undirbúningsnefnd fór í dag í vettvangsathugun á Hótel Borgarnesi þar sem talning kjörbréfanna fór fram. Að sögn Björns Leví fengust ýmis svör í ferðinni sem að fylla inn í eyður gagnanna sem nefndin hefur undir höndum.

Hefur þá meðal annars verið gengið úr skugga um að eftirlitsmyndavélar vakti alla innganga í salinn. 

Ekki fengið upptökurnar í hendurnar

„Manni fannst á umræðunni að það væri ekki tryggt að myndbandsupptökurnar dekkuðu alla innganga. Miðað við skoðunina í dag þá gera þær það, þó þær sýni ekki kjörgögnin sjálf. Það kemst enginn inn í salinn án þess að það sé hægt að sjá það á upptöku. Það er vitað hverjir fóru inn og út úr salnum.“

Að sögn Björns hefur nefndin ekki fengið upptökurnar sjálfar í hendurnar en hún hefur þó fengið yfirlit með lýsingu á því sem þar fer fram.

Spurður um næstu skref segir hann að nefndin þurfi að klára að tala við einstaklinga til að fá skýrari heildarmynd á frásögnina. „Við erum bara að safna meiri upplýsingum. Til dæmis varðandi aðkomu umboðsmanna að málum og bókanir í gerðarbækur. Það þarf að klára að tala við fólk til að komast að því hvernig frásögnin lítur út í heild,“ segir Björn Leví.

Sjáið þið fyrir endann á þessari gagnaöflun?

„Það verður örugglega eitthvað fram í næstu viku, auðveldlega. Það er bara spurning um hvernig gengur að ná í fólk. Það er ekkert einfalt í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina