Á von á löngu og leiðinlegu stríði

Svæðið sem um ræðir er í næsta nágrenni við Grímsbæ.
Svæðið sem um ræðir er í næsta nágrenni við Grímsbæ. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Ólafur Elíasson, píanóleikari, kennari og íbúi í Bústaðahverfinu, segist geta fullyrt að yfirgnæfandi meirihluti íbúanna í hverfinu sé ósáttur við vinnutillögur hverfisskipulags Háaleitis og Bústaða þar sem gert er ráð fyrir 17 nýjum byggingum með 130 til 150 íbúðum við Bústaðaveg.

Tillögurnar eru nú í kynningar- og samráðsferli og miklar og heitar umræður hafa skapast um þær í facebook-hópnum 108-Hverfagrúbba. Ljóst er á umræðunni að stór hópur er ósáttur við tillögurnar, finnst þær ekki hafa verið gerðar í samráði við íbúa og þar að auki illa kynntar.

„Svona íbúalýðræði gengur ekki. Flest fólk treystir því að kjörnir fulltrúar sjái um minnháttar breytingar og það sem þarf að gera. Það geta ekki allir íbúar mætt á skipulagsfundi, við treystum því að kjörnir fulltrúar sjái um að stýra þessu almennilega. En þegar svona gríðarleg umturnun á rótgrónu hverfi er fyrirhuguð þá er ekki hægt að gera það öðruvísi en í meira samráði við fólkið í hverfinu,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Í samráðsskýrslu vegna hverfaskipulags umrædds borgarhluta kemur fram hvernig samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila var háttað. Meðal annars hafi verið fundað með hverfisráði, viðvera höfð í hverfinu, settir saman rýnihópar á vegum Gallup, þá hafi verið haft svokallað „skapandi samráð“ og jafnframt íbúafundur þar sem borgarstjóri flutti ávarp og fór yfir viðhorf íbúa til þjónustunnar í hverfinu, fyrirhugaðar framkvæmdir og skipulag Fossvogsdalsins.

Borgarstjóri færði einnig skrifstofu sína í þjónustumiðstöðina Efstaleiti í heila viku sem hluta af kynningarferlinu. Þá voru verkefnisstjórar hverfisskipulagsins með viðveru í borgarhlutanum og íbúum gafst færi til að koma að hugmyndum og athugasemdum.

Hér má sjá vinnutillögur að nýju byggðinni meðfram Bústaðarvegi.
Hér má sjá vinnutillögur að nýju byggðinni meðfram Bústaðarvegi. Ljósmynd/Jakob Jakobsson arkitekt og Trípólí arkitektar

Segir engan rekstrargrundvöll fyrir frekari þjónustu

Ólafur segist vel tengdur inn í hverfið og hafa búið þar alla ævi, sjálfur sé hann unglingakennari og konan hans grunnskólakennari í hverfinu, en hann hafi aldrei heyrt minnst á þetta áður. Hann hafi þó kynnt sér skýrsluna.

„Ég er búinn að lesa vinnuskýrsluna um samráðið og ég get ekki séð að það hafi nokkuð komið fram þar um þessi hús við Bústaðaveg. Þvert á móti kemur þar fram að íbúarnir sem talað var við hafi talið að Bústaðavegur þyrfti að anna allavega núverandi umferðaþunga.“

Hann segist því viss um það að tillögurnar komi ekki frá íbúunum sjálfum.

„Ég ætla að fullyrða það að yfirgnæfandi meirihluti íbúana sé afar ósáttur við þessar hugmyndir. Og þá spyr ég: af hverju í ósköpunum, ef íbúar vilja ekki breytingar á hverfinu, af hverju á að fara í breytingarnar? Eigum við sem búum hérna í hverfinu ekki að ráða því hvernig hverfið okkar er? Ég fullyrði það að þessar tillögur, að koma með þessa kúldurslegu þröngu byggð við Bústaðaveginn eru ekki komnar frá íbúum hverfisins.“

Ólafur segir ekki nauðsynlegt að fara í stórbyggingar við Bústaðaveginn til þess að lækka umferðarhraða, eins og til stendur.

„Svo eru þau rök að heyrst hafi að það hafi komið fram í skoðanakönnunum, að það hafi verið beðið um frekari þjónustukjarna, en hér í hverfinu hefur aldrei gengið að reka almennilega þjónustustarfsemi í Grímsbæ, sem er nákvæmlega á þessu svæði.“

Hann bendir jafnframt á að Hólmgarður sem þjónustukjarni hafi lagst af fyrir mörgum árum og gamla Kron-búðin við Sogaveg. „Það hefur aldrei verið neinn rekstrargrundvöllur fyrir þessu,“ segir Ólafur. Hann telur ekki að ný byggð við Bústaðaveg breyti því.

Tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu til að berjast

Þrátt fyrir að gerð hverfisskipulagsins sé á lokametrunum er Ólafur ekki tilbúinn að leggja árar í bát.

„Þetta er þannig mál að ég er tilbúinn að leggja mikla vinnu á mig til að berjast gegn þessu. Mér finnst svolítið vont að fá þetta svona upp í fangið. Ég er bara á fullu í mínu lífi, í mínum verkefnum. En allt í einu er fólk eins og ég, íbúar hverfisins, sett í þá stöðu að þurfa að liggja yfir þessu máli og veita því mótspyrnu. Á hvaða vegferð er þetta fólk? Íbúar þessa hverfis hafa ekki beðið um þetta.“

Íbúum hverfisins hefur verið boðið í hverfagöngu á morgun þar sem starfsmenn borgarinnar og skipulagsráðgjafar segja frá hugmyndum um uppbyggingu í hverfinu og svara spurningum. Í kjölfarið verður svo fundur í Réttarholtsskóla.

Ólafur segir svona fund ekki skipta neinu máli, það sem skipti máli sé að fólk taki sig saman og fari í skipulagða vinnu gegn þessu. Hann telur að það takist. „Já, mér finnst fólk það reitt yfir þessu og ég held að það verði ekki mikið mál að fá fólk í það. Ég á von á löngu og leiðinlegu stríði í kringum þetta mál.“

Jákvæðnisraddir heyrast líka

Í áðurnefndum facebook-hópi hverfisins er bent á að tímasetning fundarins sé óheppileg í ljósi þess að vetrarfrí grunnskólanna hefjist á föstudag og gefið er í skyn að það sé viljandi gert. Þá er vísað til þess að borgarráð fundi ekki á morgun, fimmtudag, vegna vetrarfrísins. En venjan er að frí sé gefið í borgarráði í kringum vetrarfrí grunnskólanna.

Fríið er að þessu sinni nú á fimmtudaginn en ekki í næstu viku vegna þess að tvo til þrjá daga tekur að undirbúa borgarráðsfundi og í næstu viku stendur til að kynna fjárlagafrumvarp Reykjavíkur í borgarráði. Því þurfti að nýta þessa viku í undirbúningsvinnu.

Í hópnum eru þó ekki bara neikvæðnisraddir en í dag var kallað eftir jákvæðri umræðu um tillögurnar. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og margir virðast einnig sjá kosti við að þétta byggðina með þessum hætti. Jákvæð atriði sem eru nefnd til sögunnar eru meðal annars bætt þjónusta í nærumhverfi, lægri umferðarhraði, hentugar íbúðir fyrir fjölskyldur og möguleg hækkun á fasteignaverði.

Ólafur Elíasson píanóleikari.
Ólafur Elíasson píanóleikari. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert