Eiríkur hjá Omega dæmdur fyrir tugmilljóna skattabrot

Eiríkur Sigurbjörnsson hjá Omega.
Eiríkur Sigurbjörnsson hjá Omega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eiríkur Sigurbjörnsson, stofnandi Omega og sjónvarpspredikari á samnefndri stöð,  hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 109 milljónir í sekt vegna brota á skattalögum.

Er Eiríkur dæmdur fyrir að hafa ekki gefið upp tekjur upp á 78,5 milljónir á árunum 2011-2016 í tengslum við starfsemi Omega og þannig komist hjá því að greiða skatta upp á 36 milljónir.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Eiríkur hafi árið 1992 hafið starfsemi Omega, en hann og kona hans voru eigendur félagsins Omega Kristinboðkirkja auk Global Mission Network ehf og Gospel Channel Evrópa ehf. Í síðastnefnda félaginu var rekin erlend starfsemi Omega og var félagið með reikninga í Noregi og greiðslukort þar.

Ríkisskattstjóri hóf árið 2016 af eigin frumkvæði skoðun á notkun á erlendum greiðslukortum hér á landi. Í framhaldinu var notkun Eiríks á kortum í nafni Global Mission tekin til skoðunar og var hann síðar ákærður vegna málsins.

Í dóminum er farið yfir að Eiríkur hafi fengið greiðslur frá Omega en að þær hafi svo verið færðar sem skuld á Global Mission og að þar hafi safnast upp skuld Eiríks við félagið. Var skuldin metin sem hinar vanframtöldu tekjur og féllst dómurinn á það.

Segir í dóminum að ótvírætt sé að umrædd úthlutun af fjármunum Global Mission til Eiríks hafi verið lán sem bar að skattleggja sem laun og færa til tekna, enda var lánið óheimilt samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög, en eigendum er óheimilt að taka lán frá eigin félögum.

Sem fyrr segir var Eiríkur dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi, en tekið er fram að talsverðar tafir hafi verið á meðferð málsins. Þá er hann dæmdur til greiðslu þrefaldrar þeirrar upphæðar sem hann var fundinn sekur um að hafa komist hjá að greiða, eða samtals 109 milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina