Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar samþykkt

Ráðhúsið.
Ráðhúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsta Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í gær og gildir hún til ársins 2030.

Tilgangur stefnunnar er að styðja við öfluga lýðræðislega þátttöku íbúa og greiða götu þeirra til þess að geta haft áhrif á nærsamfélag sitt, ákvarðanatöku og stjórnun sveitarfélagsins, að því er segir í tilkynningu.

Einnig er hún ætluð sem stuðningur fyrir kjörna fulltrúa í því að þekkja óskir borgarbúa hverju sinni og byggja ákvarðanir sínar á grundvelli þeirra. Stefnan gerir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar betur kleift að sinna, undirbúa og framkvæma samráð í samvinnu við kjörna fulltrúa og íbúa.

Stefnunni fylgir metnaðarfull aðgerðaráætlun með mælanlegum markmiðum til næstu þriggja ára og hefur hún verið unnin í þverpólitísku samstarfi fulltrúa allra flokka í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði frá hausti 2019.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Ljósmynd/Aðsend

„Lýðræðisstefnan snýst um að byggja upp traust um þær ákvarðanir sem eru teknar, efla upplýsingagjöf til íbúa og auka aðkomu þeirra. Lýðræðisleg og vönduð umfjöllun um málefni bætir gæði ákvarðanna og það færir okkur betri borg,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur sem jafnframt er formaður stýrihópsins, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert