Ríkið tekur þátt í málaferlum vegna ofurdeildarinnar

Enskir stuðningsmenn voru allt annað en sáttir með stofnun ofurdeildarinnar …
Enskir stuðningsmenn voru allt annað en sáttir með stofnun ofurdeildarinnar og mótmæltu henni harðlega. AFP

Íslenska ríkið tekur þátt í dómsmáli fyrir Evrópudómstólnum sem höfðað var á Spáni vegna ofurdeildar Evrópu, sem nokkur af stærstu liðum álfunnar ætluðu að setja af stað fyrr á þessu ári. Rætt var um málið á ríkisstjórnarfundi í gær.

Í dagskrá ríkisstjórnarfundarins kom var dagskrárliður sem heyrði undir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um málaferlin. „Þátttaka íslenskra stjórnvalda í dómsmáli C-333/21 fyrir dómstóli ESB (beiðni um forúrskurð frá spænskum dómstóli í máli European Super League Company gegn UEFA og FIFA).“

Í svari ráðuneytisins vegna málsins segir að KSÍ hafi vakið athygli stjórnvalda á málinu og hagsmunum sem væru undir fyrir knattspyrnuhreyfinguna á Íslandi. Í framhaldinu hafi íslensk stjórnvöld ákveðið að skila inn skriflegum athugasemdum í dómsmálinu. Í þeim eru áréttaðir kostir núverandi fyrirkomulags og mikilvægi uppbyggingar íþróttamála í Evrópu þar sem áhersla er lögð á forræði frjálsra félagasamtaka (e. European Sport Model). Þá var útskýrt hve miklu þetta fyrirkomulagi skipti í íslensku samhengi, að tekjur af stórviðburðum skili sér aftur til smærri eininga.

Ísland getur tekið þátt í dómsmálinu þar sem það varðar efnissvið sem EES-samningurinn tekur til. Í málinu óskar spænski dómstóllinn eftir forúrskurði dómstóls ESB á túlkun á samkeppnisákvæðum sáttmála ESB, auk ákvæðanna um fjórfrelsið, sem eru einnig í EES-samningnum.

Stefnandi í málinu er félagið ESLC og óskar það eftir staðfestingu þess efnis, að með því að koma í veg fyrir skipulagningu evrópsku ofurdeildarinnar, hafi stefndu UEFA og FIFA tekið þátt í samstilltum aðgerðum og misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaðnum fyrir skipulagningu alþjóðlegra keppna í knattspyrnu í Evrópu og markaðnum fyrir markaðssetningu á réttindum tengdum slíkum keppnum. Þá óskar stefnandi eftir bráðabirgðaaðgerðum til að greiða fyrir skipulagningu og þróun ofurdeildar. 

Gera má ráð fyrir að munnlegur málflutningur fari fram á næsta ári og að dómstóll ESB kveði síðan upp forúrskurð í málinu, sem spænska dómstólnum ber að fara eftir í dómi sínum í málinu, varðandi túlkun sáttmála ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert