Beraði sig fyrir framan ungmenni á æfingu

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um ofurölvi mann við íþróttasvæði í Laugardal um klukkan hálf átta í gærkvöldi. Maðurinn var sagður hafa látið ófriðlega og berað sig fyrir framan ungmenni sem voru á æfingu á svæðinu. Hann var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu. 

Um klukkan hálf sjö í gærkvöldi var ölvaður maður handtekinn á veitingastað í miðbænum þar sem hann neitaði að greiða fyrir veitingar sem hann hafði fengið. Hann er grunaður um fjársvik og var vistaður í fangageymslu vegna ástands.

Mættu með falsað umboð 

Annar maður í svipuðu ástandi neitaði að greiða fyrir veitingar á veitingastað í Kópavogi. Sá lét jafnvel verr en kollegi hans í miðbænum og hótaði starfsfólki veitingastaðarins.

Maðurinn skildi eftir greiðslukort sitt og farsíma er hann yfirgaf vettvang.  Maðurinn var handtekinn nokkru síðar í öðru máli þá grunaður um eignaspjöll og var hann þá vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu. 

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og nótt grunaðir um ölvun við akstur. 

Um klukkan hálf sex í gærkvöldi komu tvær konur á lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu til að sækja lykla af bifreið sem önnur þeirra hafði ekið er hún var stöðvuð þá grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna.

„Konurnar framvísuðu umboði frá eiganda bifreiðarinnar þar sem eigandinn heimilaði að lyklar yrðu afhentir. Lögreglumaðurinn hringdi í eigandann sem sagðist ekki hafa ritað umboðið fyrir afhendingu á lyklunum. Lögreglumaðurinn kynnti þá konunum að umboðið væri falsað og þær væru grunaðar um skjalafals. Konunum var einnig kynnt réttarstaða sakbornings,“ segir í dagbók lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert