Brugðist við hallarekstri kirkjunnar

Lagt hefur verið til að framlengja ráðningarbanni presta og að …
Lagt hefur verið til að framlengja ráðningarbanni presta og að sameina fjölda prestakalla til að bregðast við hallarekstri þjóðkirkjunnar.

Fyrir kirkjuþingi, sem hefst um helgina, liggur tillaga um að tímabundin stöðvun nýráðninga til starfa hjá Þjóðkirkjunni - Biskupsstofu verði framlengd og að ráðist verði í hagræðingu á mannahaldi þjóðkirkjunnar, m.a. með fækkun presta á tilteknum stöðum og sameiningu prestakalla, að því er greint frá í greinagerð með tillögunni.

„Megintilgangur þessarar tillögu er að ná rekstrarhalla kirkjunnar niður og er hún einn liður af mörgum í þeirri viðleitni að lækka útgjöld kirkjunnar. Launakostnaður er mjög hátt hlutfall af rekstrinum eða um 80%,“ segir Guðmundur Þór Guðmundsson, lögfræðingur kirkjuþings, í samtali við Morgunblaðið.

Fresta nýráðningum presta

Í greinagerðinni segir að mikill hallarekstur hafi verið hjá þjóðkirkjunni árið 2020 og að fyrirsjáanlegt sé að svo verði áfram, verði ekkert að gert.

Til að sporna við halla í rekstri þjóðkirkjunnar og skapa tíma til að bregðast við var tímabundin stöðvun nýráðninga samþykkt á aukakirkjuþingi 21. janúar síðastliðinn. Átti það að vera í gildi til 1. nóvember en lagt hefur verið til að það verði framlengt til 1. janúar 2022, að sögn Guðmundar.

„Í þessari tillögu er aðallega verið að gefa ákveðið svigrúm til hagræðinga innan rekstursins þar sem kostur er, þ.e.a.s. að fresta nýráðningum um nokkra mánuði.“

Mikill hallarekstur var hjá þjóðkirkjunni 2020 og fyrirséð að svo …
Mikill hallarekstur var hjá þjóðkirkjunni 2020 og fyrirséð að svo verði áfram, verði ekkert að gert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við þann fjárhagsramma sem kirkjan hefur er henni unnt að halda úti um það bil 135 stöðugildum en í dag eru þau u.þ.b. 145 talsins, samkvæmt greinagerð með tillögunni.
Því sé fyrirséð að grípa þurfi til aðgerða, m.a. með því að fækka prestum á tilteknum stöðum. Þar segir einnig að fjölga eigi prestum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi um 3,5 en að fækka eigi prestum á landsbyggðinni um 10. Guðmundur segir málið þó ekki vera alveg svo einfalt.

„Það er svolítið erfitt að setja málið svona upp, að það eigi að fækka prestum á landsbyggðinni og færa þá yfir á Suðvesturhornið. Það má jú alveg segja að það sé þörf á nýjum preststörfum á Suðvesturhorninu, einfaldlega bara vegna uppbyggingar nýrra íbúðarhverfa þar.“

Reynt verði að komast hjá uppsögnum

Þá segist hann telja „ansi bratt“ að tala um að fækka prestum á landsbyggðinni um 10 því gert sé ráð fyrir því að sett verði upp tvö embætti farpresta sem leysa af á landsvísu.

„Ég held það sé ekki alveg heiðarleg framsetning á þessu því það hefur líka verið talað um fækkun á Suðvesturhorninu en það er ekki mikil fækkun. Bendi þó á hugmyndir um fækkun í sérþjónustu í framtíðinni. Þannig þetta er ekki alveg svona svart á hvítu.“

Með tillögu kirkjuþingsins sé reynt að komast hjá því að prestum verði sagt upp störfum við þessar breytingar, segir Guðmundur inntur eftir því.

„Það verður frekar reynt að grípa inn í þegar menn t.d. hætta og fara á eftirlaun.“
Óljóst er hvort tillagan komi til með að verða samþykkt á kirkjuþingi, að sögn Guðmundar.
„Kirkjuþing ræður þessu og það er engin leið að segja til um það í dag hvernig málið verður afgreitt.“

Lagt hefur verið til að sameina m.a. Hallgríms- og Háteigsprestaköll …
Lagt hefur verið til að sameina m.a. Hallgríms- og Háteigsprestaköll í eitt prestakall.

Sameina fjölda prestakalla

Í minnisblaði um hagræðingu þjóðkirkjunnar eru lagðar til breytingar á prestakallaskipan. Þar er m.a. lagt til að í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra muni Hallgríms- og Háteigsprestaköll sameinast í eitt prestakall og sömuleiðis Dómkirkju- og Nesprestakall. Þar segir einnig að í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra muni Seljaprestakall væntanlega sameinast Breiðholtsprestakalli innan tíðar.

Árétting

Hér er birt rétt útgáfa af fréttinni en vegna tæknilegra mistaka birtist röng útgáfa í Morgunblaðinu í dag, á bls 26.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert