Höfðar bótamál ef þetta verða lyktir málsins

Geir Gestsson í héraðsdómi í morgun.
Geir Gestsson í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geir Gestsson, verjandi Murats Selivrada sem var sýknaður í Rauðagerðismálinu í morgun, segist ætla að höfða bótamál gegn ríkinu fari svo að lyktir málsins verði á þennan veg.

„Hann hefur setið að ósekju í gæsluvarðhaldi, fangelsi og verið frelsissviptur. Það er ljóst að mannorð hans er í rúst eftir þetta,“ sagði Geir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hann sagði Murat augljóslega una dóminum enda hafi hann verið sýknaður af aðild að morðinu á Armando Beqirai.

„Við bíðum eftir því hvað ákæruvaldið gerir. Kannski áfrýja þeir og þá tökum við til varnar. Ef þetta eru lyktir málsins, sýkna, þá mun ég höfða bótamál gegn ríkinu,“ sagði Geir.

Murat Selivrada í héraðsdómi í morgun.
Murat Selivrada í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður út í 16 ára dóminn yfir Angjelin Sterkaj sagði hann ekki við hæfi að tjá sig um þyngd refsingar hans. „Hann er ekki minn skjólstæðingur en það lá fyrir að þetta er alvarlegur glæpur og það lá fyrir játning þannig að það var ljóst að yrði einhver refsing,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert