Ráðlagt að kæra innilokun barns í skóla

Alma segir mikilvægt að fá fagaðila inn í skólana til …
Alma segir mikilvægt að fá fagaðila inn í skólana til að koma til móts við börn með sérþarfir Ljósmynd/Colourbox

Það er „stríðsástand í skólakerfinu“ vegna úrræðaleysis þegar kemur að börnum með sérþarfir. Skortur á fagaðilum kemur í veg fyrir að hægt sé að komast að rót vandans þegar þessi börn sýna erfiða hegðun.

Þetta segir Alma Björk Ástþórsdóttir, stofnandi grasrótarhópsins Sagan okkar, sem berst fyrir réttindum barna með sérþarfir.

Lausnin virðist oft vera að aðskilja börnin frá öðrum nemendum og jafnvel loka þau inni á meðan þau róa sig niður. Í því samhengi hefur verið talað „gula herbergið“ sem minnst er á í verklagsreglum sem notaðar eru í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram til hvaða aðgerða á að grípa ef barn sýnir „ógnandi hegðun eða ofbeldi“. Mikilvægt sé að nemandi læri fljótt að slík hegðun borgar sig ekki.

„Gula herbergið“ er ákveðið rými þar sem barnið dvelur á meðan það leysir verkefni til að vinna sig aftur inn í bekkinn. Meðan á dvölinni í herberginu stendur missir barnið af list- og verkgreinum og má ekki borða með samnemendum sínum. Þess skal gætt að nemandi fái eins litla jákvæða styrkingu og hægt er í þessum aðstæðum og ef ofbeldi og ógnandi hegðun á sér stað í lok dags gæti barn þurft að byrja næsta dag utan hópsins. Tekið er fram í verklagsreglunum að starfsmaður eigi alltaf að vera hjá barni og það eigi aldrei að upplifa sig eitt.

Börnin ráða oft ekki við aðstæður í skólanum

Alma getur ekki litið öðruvísi á en að þarna sé um refsingar að ræða. 

„Það má taka barnið afsíðis svo það nái að róa sig niður, leyfa því að teikna, skoða bók eða hlusta á tónlist en ef barn þarf að reikna, skrifa eða gera eitthvað annað ákveðið til þess að komast aftur inn í bekk, þá er það refsing. Verklagið bendir til þess að þrýst sé lengi á barnið að leysa verkefnið fyrst það getur náð að missa af verklegum tímum og mat á meðan á þessu stendur. Þetta er ekkert annað en þvingun og ofbeldi. Það er verið að refsa fyrir eitthvað sem barnið ræður ekki við því þessi börn eru oft ekki komin með þann heilaþroska sem þarf. Í sumum skólum er verið að gera illt verra.“

Þessum verklagsreglum virðist þó ekki alltaf fylgt og dæmi eru um að gengið sé enn lengra. Fréttablaðið greindi máli frá máli barns í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu sem lokað var eitt inni í 25 mínútur. Áður hafði verið greint frá málinu í lokuðum hópi á facebook. Barnið, sem er með sérþarfir og hefur glímt við sjálfsvígshugsanir, varð að sögn foreldranna sturlað af hræðslu.

Alma segir málið alvarlegt og að þarna sé verið að beita barn ofbeldi.

„Þetta er brot á hegningarlögum, barnalögum og mörgum alþjóðasáttmálum. Það er bara ákaflega sorglegt að starfsfólk sé ekki betur að sér en svo að það brjóti gegn barni með þessum hætti og virðist ekkert sjá að því.“

Foreldrum barnsins hefur verið ráðlagt að kæra málið til lögreglu og eru þeir nú að íhuga það.

„Ég hélt að við værum bara að glíma við skort á fagaðilum í skólanum, ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu alvarlegu ofbeldi sum börn eru að verða fyrir af hálfu starfsmanna.“

Alma bendir á að í flestum tilfellum séu þessi börn með erfiðar greiningar og ráði hreinlega líffræðilega ekki við allar aðstæður í skólanum. Þessi börn þurfi fagaðila til að hjálpa sér að ná stjórn á tilfinningum sínum og hegðun. Vandinn sé hins vegar sá að það eru ekki fagaðilar í öllum skólum.

„Samt eiga foreldrar að senda börnin sín í skólann þar sem aðstæður eru gjarnan mjög krefjandi fyrir þau og þau útsettari fyrir því að missa stjórn á sér. Svo þegar þau missa stjórn á sér þá er börnunum og foreldrunum kennt um.“

Sorglegt að kalla þurfi eftir upplýsingum

Umboðsmaður Alþingis hefur nú í annað sinn óskað eftir upplýsingum, frá bæði mennta- og menningarmálaráðuneytinu og nokkrum skólaskrifstofum, um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að eftir að svör hafi borist verði tekin afstaða til þess hvort tilefni sé til þess að taka beitingu úrræða af þessu tagi, hvort sem er í einstökum tilvikum eða að staðaldri, til almennrar athugunar að eigin frumkvæði.

Alma tekur því fagnandi að Umboðsmaður kalli eftir þessum upplýsingum. Það eitt og sér varpi ljósi á alvarleika stöðunnar.

„Umboðsmaður Alþingis er kannski að koma þessum börnum til bjargar þegar stjórnvöld eru að bregðast. Þetta er „trukkið“ sem við þurftum því ég tel mjög hæpið að svona verklag standist lög. Það er samt sorglegt í barnvænu velferðarsamfélagi að Umboðsmaður Alþingis telji þörf á því að skoða nánar aðbúnað og starfshætti í kringum börn með sérþarfir. Það er bara sorglegt og ótrúleg skömm fyrir stjórnvöld. Maður veltir því líka fyrir sér hvers vegna Umboðsmaður Alþingis þurfi að biðja um þessar upplýsingar í annað sinn. Var um misskilning að ræða eða var viljandi verið að halda upplýsingum frá Umboðsmanni? Ef svo er þá er það auðvitað mjög alvarlegt.“

Mikilvægt að fá fagaðila inn í skólana

Alma segir að þau í hópnum Sagan okkar hafi óskað eftir fundi með Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra í maí, en ekki fengið neitt svar. Hópurinn hafi viljað koma ráðherra inn í málið því nýtt frumvarp til laga um „samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna“ komi ekki til með að leysa þennan vanda.

„Við þurfum að fá fagaðilana inn í skólana vegna þess að það er svo margt sem gerist þar sem segir okkur hvað barnið þarf. Fagaðilar búa yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til þess að lesa í aðstæður barnsins og bregðast við með viðeigandi hætti. Þarna eru bestu tækifærin fyrir félagsfærniþjálfun til dæmis. Það á ekki að nálgast þessi börn vegna þess sem þau gera heldur af hverju þau gera það. Annars erum við alltaf að plástra sárin. Það að setja þau afsíðis í herbergi og taka þau út úr tímum, það er að glíma við afleiðingarnar á meðan við ættum að vera að finna rót vandans. Af hverju líður barninu svona? Af hverju finnst barninu það þurfa að kasta stólum eða að slá frá sér? Það er þetta sem við þurfum að komast að og við þurfum fagaðila til þess.“

Kemur margfalt í hausinn á okkur

Alma telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni betur saman þegar kemur að heilbrigðisþjónustu barna. „Þannig að ákveðin heilbrigðisþjónusta sem ríkið er að veita sé færð inn í skólana. Talþjálfun, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónusta og þroskaþjálfi væri þá þjónusta sem er veitt innan skólans í nærumhverfi barnsins. Að þessir fagaðilar geti gripið inn í krefjandi aðstæður barnsins.“

Þá er annað sem Ölmu finnst gleymast í umræðunni um börn með sérþarfir í skólakerfinu.

„Það eru að birtast fréttir um aukin ofbeldismál meðal ungmenna og oft á tíðum mjög ungra barna. Svo heyrir maður að foreldrar eigi að tala við börnin sín, en þarf ekki líka að tala við skólayfirvöld? Getur verið að vandinn í skólakerfinu eigi stóran þátt í þessari aukningu? Okkur ber skylda til þess að senda börnin okkar í skóla þar sem ekki er komið til móts við þeirra þarfir. Þau verða fyrir ítrekaðri vanrækslu og í einhverjum tilfellum jafnvel ofbeldi af hálfu starfsmanna. Foreldrar eru varnarlausir hér. Það er verið að móta börnin í ákveðið form og stýra hegðuninni í stað þess að að finna rót vandans og vinna úr honum. Þá er það þetta sem við fáum. Það kemur nefnilega margfalt í hausinn á okkur ef við vinnum ekki með börnin í skólanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert