Ríkissaksóknari ákveði framhaldið

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðssaksóknari rýnir nú niðurstöður héraðsdómara í Rauðagerðismálinu en það er ákvörðun ríkissaksóknara hvort dóminum verði áfrýjað, eða við hann unað. 

„Við skoðum allar niðurstöður, vegum þær og metum, en getum ekki tjáð okkur mikið þar sem ríkissaksóknari á ákvörðunarvald um framhaldið,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

Angj­el­in Sterkaj hlaut 16 ára fang­elsi fyr­ir morðið á Arm­ando Beqirai en þau Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Murat Selivrada voru sýknuð af kröf­um ákæru­valds­ins. 

„Bara sú niðurstaða sem dómarinn kemst að“

Inntur eftir viðbrögðum við sýknudómi þremenningana, sem ákæruvaldið hafði ákært fyrir þátttöku í morðinu, vék Ólafur sér undan því að tjá sig sérstaklega um þá niðurstöðu.

Hann bendir á að þá væri hann farinn að stíga inn á svið ríkissaksóknara. „Þetta er bara sú niðurstaða sem dómarinn kemst að eftir að hafa yfirfarið gögnin.“

Ólafur tók eftir athugasemdinni í niðurlagi dómsins, þar sem dómari setur út á vinnubrögð við ákveðna skýrslugerð, en bendir á að henni hafi verið beint að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ekki saksóknara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert