„Stendur ekki yfir slösuðu barni og skammar það“

Dóra telur lækkun hámarkshraða vera það eina sem hjálpi, sem …
Dóra telur lækkun hámarkshraða vera það eina sem hjálpi, sem og að fólk sé með hugann við aksturinn. mbl.is/​Hari

„Þetta opnaði augu mín fyrir því hvað lækkun hámarkshraða skiptir miklu máli,“ segir Dóra Magnúsdóttir sem lenti í óskemmtilegu atviki þar sem hún rétt náði að hemla áður en bíllinn hennar lenti á barni, til þess eins að sjá barnið verða fyrir næsta bíl. 

Dóra ók eftir Hringbrautinni í Vesturbænum í gærkvöldi, þar sem hámarkshraði er 40 kílómetrar á klukkustund, þegar hún kom að gangbraut við Björnsbakarí. 

„Á einu sekúndubroti er barn á hjóli fyrir framan mig. Sem hjólar á rauðu yfir gangbrautina án þess að horfa til hliðar.“

Dóra náði að snögghemla en barnið hélt áfram ótrautt yfir á næsta vegarhelming og varð þar fyrir bíl. 

„Drengurinn og hjólið flugu á götuna, ég öskraði upp og rýk út bílnum og horfi á manninn sem ók á drenginn fölna upp í skelfingu. Drengurinn slasaðist nánast ekkert sem betur fer, þrátt fyrir flugið sem var býsna bratt, en er sennilega með ljóta marbletti og var með hjálm.“

„Höggið var ekki svo mikið því hann keyrði ekki svo hratt“

Í samtali við mbl.is bendir Dóra á að líkurnar á að illa fari vegna bílslyss aukist gífurlega milli þess sem þú keyrir á 30 eða 40 km/klst. 

„Ef ég hefði verið á meiri ferð hefði ég ekki getað stoppað. Svo kemur bíll úr hinni áttinni og það var hrikalegt að horfa á drenginn fljúga, en höggið var ekki svo mikið því hann keyrði ekki svo hratt.“

í þessu tilfelli var það í raun barnið sem átti sök á aðstæðum en Dóra bendir á að sama hvað við tölum um endurskinsmerki og varúð í umferðinni, breytum við ekki börnum, sem séu hvatvís og ekki alltaf skynsöm. „Strákurinn var bara að elta vin sinn.“

Dóra telur lækkun hámarkshraða vera það eina sem hjálpi, sem og að fólk sé með hugann við aksturinn. Ekki sé hægt að ætlast til þess að börn standist allar væntingar um hátterni í umferðinni. „Þú stendur ekki yfir slösuðu barni og skammar það, skaðinn er skeður.“

Hún greindi frá atvikinu fyrr í dag:

mbl.is