Algengt að börn fái orkudrykki gefins

Orkudrykkjaneysla ungmenna er áberandi mikil á Íslandi.
Orkudrykkjaneysla ungmenna er áberandi mikil á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög auðvelt fyrir börn að nálgast orkudrykki og það er verið að gefa þeim þá,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis. Í áhættumati sem framkvæmt var fyrir Matvælastofnun í fyrra kom fram að mjög algengt er að börn í 8. til 10. bekk fái gefins orkudrykki í tengslum við íþróttir eða hópastarf.

Sögðust 73% stúlkna í tíunda bekk hafa fengið slíka drykki gefins og 58% stráka á sama aldri. Hlutfallið var sömuleiðis hátt fyrir börn í 8. og 9. bekk.

Nú er nýtt áhættumat í vinnslu sem tekur sérstaklega á orkudrykkjaneyslu framhaldsskólabarna. Í samtali við mbl.is í gær sagðist framhaldsskólakennari taka eftir mikilli neyslu slíkra drykkja á meðal nemenda og að hann hefði aðstoðað nemendur við að draga úr verulegri neyslu, allt að 10 orkudrykkja á dag.

Almennt eru um 105 milligrömm af koffíni í orkudrykkjum sem börn geta keypt. Sumar verslanir hafa sett aldurstakmark fyrir kaup á slíkum drykkjum en Jóhanna segir að engar reglugerðir séu til sem banni börnum að kaupa orkudrykki með 105 milligrömmum af koffíni. Sú reglugerð sem gildir varðandi bann við sölu á orkudrykkjum til barna yngri en 18 ára gildir aðeins ef það eru 32mg af koffíni í hverjum 100ml af drykk.

Samkvæmt fyrrnefndu áhættumati er orkudrykkjaneysla íslenskra barna í 8. til 10. bekk með því mesta sem þekkist í Evrópu. Varfærið mat sýnir að hjá um 30% þeirra sem neyta orkudrykkja sé koffínneysla yfir þeim mörkum sem talið er að valdi neikvæðum áhrifum á svefn. Áræðið mat sýnir aftur á móti að hlutfallið sé nær 97%.

„Við vitum að svefn spilar stórt hlutverk í góðri andlegri líðan. Orkudrykkirnir trufla svefninn og það er ekki gott að það sé verið að gefa krökkum þetta. Um leið og líkaminn byrjar að fá koffín þá vill hann halda áfram að fá það,“ segir Jóhanna.

Jóhanna Eyrún Torfadóttir.
Jóhanna Eyrún Torfadóttir.

Vorum ekki viðbúin

Koffín er að finna mun víðar en í orkudrykkjum, til dæmis í kaffi og sumu tei. Eins og áður segir er koffínneysla hjá a.m.k. 30% ung­menna í 8. til 10. bekk sem neyta orku­drykkja yfir þeim mörk­um sem talið er að valdi nei­kvæðum áhrif­um á svefn. Til sam­an­b­urðar inn­byrða aðeins 5% ung­menna, sem ekki drekka orku­drykki, koff­ín yfir þess­um mörk­um. Jóhanna segir ljóst að börn sæki frekar í orkudrykki en kaffi.

„Svo er munurinn á orkudrykkjum og kaffi líka sá að þú getur drukkið orkudrykki mjög hratt vegna þess að þeir eru kaldir.“

Spurð um það hvort fólk sé almennt meðvitað um stöðuna segir Jóhanna:

„Ég veit ekki hvernig þetta hefur náð að gerast án þess að við tækjum eftir því. Við höfum náð svo gríðarlega flottum árangri með börn, þau eru svo dugleg, stunda mörg íþróttir eða annað hópastarf og á Íslandi hefur unglingadrykkja og reykingar hjá unglingum snarminnkað á síðustu árum og áratugum. Þetta var bara eitthvað sem við vorum ekki viðbúin. [Þessi ofneysla] er greinilega eitthvað einsdæmi á Íslandi. Þetta virðist ekki vera að gerast annars staðar,“ segir Jóhanna.

mbl.is