Byrlunarfaraldur geisi í Reykjavík

Birgitta segist vonast til þess að eitthvað meira fari að …
Birgitta segist vonast til þess að eitthvað meira fari að koma í ljós. mbl.is/Ari

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club, segir að byrlunum hafi fjölgað verulega á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur síðastliðnar helgar. Hún líkir ástandinu við einhvers konar faraldur.

„Ég veit um nokkur tilvik, bæði hjá okkur og öðrum stöðum niðri í bæ núna síðastliðnar helgar þar sem þetta virðist vera að koma upp og virðist einhvern veginn vera að færast í aukana, það er eins og það sé einhver faraldur í gangi,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Birgitta segir að staðurinn taki þessu mjög alvarlega. Farið sé yfir upptökur ef tilfelli koma upp en oft sé lítið hægt að sjá á þeim.

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club.
Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ítreka fyrir starfsfólki einkenni byrlana

Að hennar sögn eru starfsmenn staðarins vakandi gagnvart einkennum byrlana. Þeir hafi í öllum tilvikum hringt á sjúkrabíl og fylgt manneskjunni út.

„Ég var persónulega sjálf á staðnum eitt skiptið þegar það var haldið á stelpu út og ég beið úti með henni ásamt starfsmanni á meðan við biðum eftir sjúkrabíl,“ segir hún.

„Síðan er spurning hvort það sé verið að setja ofan í drykki eða hvort það sé eitthvað nýtt í gangi, þannig að við fylgjumst mjög mikið með og höfum ítrekað við starfsfólkið okkar einkenni byrlana og að vera vakandi fyrir gestum.“

Hún segist vonast til þess að eitthvað meira fari að koma í ljós en þar sem byrlanirnar eru ekki bundnar við einhvern einn stað sé greinilegt að það séu fleiri en bara einhver einn aðili sem sé að þessu.

„Við erum að impra á því sem við höfum verið að gera og að skoða frekari aðgerðir af okkar hálfu.“

Spurning hvort næstu skref séu að leitað sé á fólki

Í kjölfar atviks sem átti sér stað á Bankastræti Club að kvöldi laugardagsins 9. október, þar sem tveimur karlmönnum á þrítugsaldri var ógnað af öðrum gesti með hnífi, segir Birgitta að það sé spurning hvort að næstu skref séu að leitað verði á fólki á skemmtistöðum á Íslandi.

„Síðan er maður að lesa fréttir af klúbbum erlendis að fólk vilji að það sé leitað á aðilum áður en að það sé komið inn, sérstaklega í ljósi nýrra aðferða þar sem er verið að stinga fólk til að byrla þeim,“ segir hún.

„Maður veit náttúrulega ekki hvort að eitthvað slíkt sé komið til Íslands en það er spurning hvort að það sé næsta skref – að það sé bara leitað á öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert