Fóru ítarlega yfir kærurnar í dag

Birgir segist reikna með að nefndin þurfi að funda daglega …
Birgir segist reikna með að nefndin þurfi að funda daglega í næstu viku líkt og hún gerði í þessari viku. mbl.is/Unnur Karen

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa, segir að fundur nefndarinnar í dag hafi gengið vel. Kærendur kosninganna komu fyrir nefndina og gerðu grein fyrir kærum sínum og umkvörtunarefnum.

„Við vorum að hitta í morgun síðasta yfirkjörstjórnarmanninn úr norðvesturkjördæmi og erum búin að hitta hina fulltrúana á síðustu dögum,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

„Síðan fengum við til okkar sex af þeim sem hafa kært framkvæmd kosninganna og fórum nokkuð ítarlega yfir þeirra kærur, gáfum þeim kost á að rökstyðja þær og þess háttar.“

Allt nýtist nefndinni við störf sín

Spurður hvort hann hafi verið sáttur með þau svör sem kærendurnir gáfu nefndinni segir hann að allt sem nefndin geri nýtist þeim við sín störf. Hann segir að ekkert hafi komið á óvart á fundinum.

„Eins og ég segi – við erum bæði að ræða við þá sem tóku þátt í framkvæmdinni í Norðvesturkjördæmi og eins þá sem hafa kært framkvæmdina, auk þess að afla annarra gagna, og þetta er hvort tveggja mikilvægur liður í okkar vinnu.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgir Ármannsson á fundi nefndarinnar í vikunni.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgir Ármannsson á fundi nefndarinnar í vikunni.

Fleiri kærendur koma fyrir nefndina á mánudag

Hver eru næstu skref í málinu?

„Á mánudaginn erum við búin að setja upp fund með þeim kærendum sem við funduðum ekki með í dag, þannig að ég geri ráð fyrir því að þá verði sex aðrir sem lögðu fram kærur sem koma til okkar.

Við þurfum nú líka á okkar fundum að fara yfir hvað er komið af gögnum til viðbótar því sem hefur verið og fara í gegnum þau.“

Birgir segist reikna með að nefndin þurfi að funda daglega í næstu viku eins og hún gerði í þessari viku.

mbl.is