Ein blaðsíða í Sjálfstæðu fólki á viku

Sophie Laszlo, sendiherra Frakklands á Íslandi, í sendiráðsbústaðnum að Skálholtsstíg.
Sophie Laszlo, sendiherra Frakklands á Íslandi, í sendiráðsbústaðnum að Skálholtsstíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sophie Laszlo, sendiherra Frakklands á Íslandi, er nýtekin við starfinu en segist nú þegar vera búin að koma sér vel fyrir í sendiráðsbústað Frakka að Skálholtsstíg 6, við hlið Næpunnar, húss Magnúsar Stephensen landshöfðingja. „Ég er búin að setja ljósaseríur í gluggana,“ segir hún og biður blaðamann að setjast í betri stofuna. Sophie er mikill áhugamaður um menningu og listir og segir að Frakkar og Íslendingar eigi margt sameiginlegt þegar kemur að verndun menningararfs þjóðanna.

Þannig segir hún, blaðamanni til nokkurrar undrunar, að Frakkar berjist í bökkum við að halda tungumáli sínu á floti í brotsjó engilsaxneskunnar, ekkert síður en Íslendingar. Sendiherrann segist þannig vilja gera franskri tungu hærra undir höfði og gera meira úr franskri tækni, vísindum og nýsköpun.

„Fyrir mér er tungumál grundvallaratriði sjálfsmyndar þjóðar og íbúa hennar. Við Frakkar erum að berjast fyrir tilverurétti okkar tungumáls og þið Íslendingar gerið það sömuleiðis. Ég held að ef þið berjist ekki fyrir tungumáli ykkar á alþjóðavísu glatið þið einhverju sem er algjörlega ómissandi.“

Tók í hönd Mandela

Sophie hóf störf í franska utanríkisráðuneytinu árið 1992 – hún er un diplomate de carrière – og hefur starfað um víða veröld. Hennar fyrsta starf þar var sem svokallaður desk officer Suður-Afríku árið 1992. Það starf segir Sophie að hafi breytt lífi sínu.

„Líf hvers manns breytist eftir að hann hittir Nelson Mandela,“ útskýrir Sophie. „Yfirmaður minn gaf mér það verkefni að fylgja Mandela út á flugvöll eftir að hann hafði fundað með frönskum sendifulltrúum og ég sat í bíl með honum, ein, í um klukkustund,“ segir Sophie og er varla búin að sleppa orðinu þegar blaðamaður spyr af ákafa hvers hún hafi spurt sjálfan Nelson Mandela.

„Það var hann sem réð umræðuefninu. Hann talaði um sjálfan sig og sína fortíð og um fjölskyldu sína. Hann svaraði þannig spurningum sem ég hefði aldrei þorað að spyrja.“ Loks kvöddust þau með virktum og tókust í hendur. „Ég hafði á tilfinningu að þetta handtak hefði skilið eitthvað eftir hjá mér,“ segir sendiherrann og brosir.

Fyrsta starf Sophie erlendis var í Þýskalandi, þar sem hún starfaði sem sérfræðingur hjá sendiráði Frakka í Bonn, fyrrverandi höfuðborg Þýskalands, einmitt í þann mund sem verið var að gera Berlín að höfuðborg landsins. Hún og fyrrverandi maður hennar komu til Þýskalands barnslaus en yfirgáfu landið tveimur börnum ríkari. Nokkrum árum síðar, eftir frekari störf hjá frönsku utanríkisþjónustunni, fór fjölskyldan til Portúgal þar sem Sophie starfaði áður en hún varð konsúll í Frankfurt.

Sophie segist hafa verið farin að dreyma um að flytja til Íslands og verða þar fulltrúi Frakklands. Tíminn leið og tækifærin komu og fóru, en loks kom að því að yfirmaður hennar, sem leggur fram tillögur um skipan sendiherra, spurði Sophie hvort hún hefði enn áhuga á Íslandi.

Íslenska og franska á sama báti

„Já, sagði ég strax. Ég mun yrkja ljóð!“ Sophie segist ekki vita af hverju þessi orð komu til hennar og hlær við minninguna um þessa stund. Nokkrum mánuðum áður en hún vissi að hún væri á leið til Íslands hóf Sophie að læra íslensku. Hún segist enda nokkuð hjátrúarfull og hélt kannski að íslenskunámið myndi setja e.k. lóð á vogarskálar örlaganna og bera hana beinustu leið á Frón. Svo varð, Sophie er komin og hún segist þegar vera orðin heimakær.

Það sem heillaði Sophie mest við Ísland var íslenska tungan, náttúran og íslenskur menningararfur. Eins og áður sagði er hún mikill menningarfrömuður og er mikill bókaunnandi. Hún segist hafa lesið bók Auðar Övu Ólafsdóttur, Afleggjarinn, af miklum áhuga.

„Bókin talaði til mín vegna þess að hún fjallar um bækur. Hún segir sögu manns sem fer í afskekkt klaustur, þar sem hann þekkir engan, til þess að stunda garðyrkju. Hann eignast svo vini og bandamenn í gegnum bækurnar.“

Sophie hefur einnig lesið, samkvæmt fyrirmælum íslenskukennara síns, íslensku barnabókina Óðinn og bræður hans, sem kynnir helstu leikendur norrænnar goðafræði eins og þeir birtast í Snorra-Eddu. Íslenskukennarinn hefur svo kynnt Sophie fyrir meistaradeild íslenskra bókmennta, sem Sophie segir sjálf að hafi e.t.v. verið aðeins of stór biti til að kyngja í bili.

„Sjálfstætt fólk,“ segir Sophie á góðri íslensku en þó með frönskum hreim. „Ég les í raun bara eina síðu á viku þar sem ég þarf að fletta upp nánast hverju einasta orði.“ Eftir að blaðamaður hafði svo skotið inn einhverju óþarfa blaðri um þrjósku nóbelsskáldsins við að brjóta hefðbundnar réttritunarreglur, sagði Sophie: „Já, þetta er krefjandi bók. Setningarnar byrja flestar eðlilega en halda síðan áfram mun lengur en eðlilegt getur talist og maður veltir stundum fyrir sér hversu marga vindla hr. Laxness hafi eiginlega verið að reykja,“ og uppsker hlátur blaðamanns. Sophie segist þó líka við bókina og kveðst ætla að halda lestrinum áfram.

Nýsköpun og íþróttir

Sophie segist vilja stuðla að samstarfi ríkjanna tveggja á ýmsum sviðum. Nefnir hún bæði nýsköpun og málefni norðurslóða í því sambandi. Sophie segir blaðamanni frá því þegar hún heimsótti stoðtækjaframleiðandann Össur.

„Það er það sem starf mitt snýst um, að leiða aðila saman. Og ég held að það sé mikið tækifæri til þess af því Össur framleiðir gerviútlimi og við munum auðvitað halda Ólympíumót fatlaðra í París árið 2024. Við ætlum að vinna statt og stöðugt að því að þeir komist í samband við framkvæmdanefnd Ólympíumótsins.“

Sophie segir að ímynd alþjóðasamfélagsins sé mjög einhliða. Flestir hugsi um mat, menningu, listir o.þ.h. þegar þeir hugsa um Frakklands. Sophie vill að fleiri tali um önnur svið fransks samfélags, eins og iðnað, nýsköpun og vísindi, sem hún segir að eigi sér ríka sögu í Frakklandi og sé enn í dag grundvallarstoð landsins.

„Þegar ég vann í menningarmáladeild franska utanríkisráðuneytisins vann ég að því að færa kastljós alþjóðasamfélagsins að öðru en þessu hefðbundna, listum, matarmenningu og þvíumlíku. Það sem við gerðum var að nota íþróttir sem landkynningu og notuðum ruðning og fótbolta. Á alþjóðavísu jókst fjöldi þeirra sem lagði stund á frönskunám um 10%, sem er ansi mikið,“ segir Sophie og bætir við að hún vilji endurtaka leikinn hér á landi í tilefni af Ólympíuleikunum í París eftir þrjú ár.

Sophie er skipuð til þriggja ára en möguleiki er á eins árs framlenginu að þeim tíma loknum. Hún segist ætla að nýta tímann vel, ná fullum tökum á íslensku og taka enn meira ástfóstri við landið en hún hefur nú þegar gert.

„Ísland kallar á mig,“ segir hún.

mbl.is