„Ekki starfsemi sem fer auðveldlega úr landi“

Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.
Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu. Samsett mynd

Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, sér margvísleg tækifæri fólgin í sölu fyrirtækisins til franska sjóðsstýringafyrirtækisins Adrian. Hann skilur áhyggjur fólks af sölunni en telur þær að mestu leyti óþarfar. 

Í fréttatilkynningu sem barst í nótt var greint frá því að Síminn hefði komist að samkomulagi við Ardian um kaup á Mílu, sem er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en kaupverðið nemur 78 milljörðum króna. 

Breytinga að vænta

Jón hefur trú á því að þessi eigendaskipti muni hafa talsverðar breytingar í för með sér: „Ég held að þetta sé mikið tækifæri fyrir Mílu til að verða sjálfstætt félag. Við horfum til þess að Míla geti sem óháð fjarskiptainnviðafélag gengt lykilhlutverki í uppbyggingu fjarskiptainnviða á Íslandi.“

Sú breyting muni bæði ná til almennings og fjarskiptafyrirtækja á Íslandi. „Þá ættum við að geta samnýtt meira þá innviði sem eru til og þá aukið uppbygginguna og klárað þau verkefni sem eru í gangi af meiri krafti en áður.“

Hvaða verkefni eru það helst?

„Það er ljósleiðaravæðing úti á landi og í þéttbýlisstöðum úti á landi. Það er stórt verkefni sem er á fullri ferð þetta er langtímaverkefni sem við vonum að við getum gert hraðar. 5G-uppbyggingin er síðan líka komin vel af stað, það er stórt verkefni. Síðan er það annað sem ég horfi til og er mikilvægt sem er fjarskiptaöryggi. Það er stórt og víðtækt verkefni auk þess að vera mjög mikilvægt.“           

Gerir ráð fyrir innspýtingu

Að sögn Jóns er von á nokkurri fjárfestingu inn í félagið í kjölfar eigendaskiptanna: „Já, ég sé að það er tækifæri til þess að eflast og sérstaklega gera meira fyrir fleiri fjarskiptafyrirtæki og hraðar. Ég er bara bjartsýnn á það að við getum eflt þetta fyrirtæki enn meira. Það er verið að selja Mílu fyrir háa fjárhæð og þetta er mjög öflugt fyrirtæki. Ég hef trú á því að þetta sé tækifæri til þess að gera það ennþá öflugara.“

Rætt á fundi þjóðaröryggisráðs

Margir hafa viðrað áhyggjur vegna frétta af sölu fyrirtækisins og var málið meðal annars tekið fyrir á fundi þjóðaröryggisráðs. Þá hafa formenn stjórnarandstöðuflokkanna margir gagnrýnt áformin harðlega. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist í samtali við mbl.is hafa áhyggjur af því að Ísland væri að missa yfirráð yfir innviðum landsins.

Jón Ríkharð segist skilja áhyggjur fólks af sölunni en telur þær í raun óþarfar:

„Almennt séð skilur maður þær áhyggjur. En þetta er ekki starfsemi sem fer auðveldlega úr landi.“

Kaupin munu að sögn Jóns ekki hafa fyrirsjáanleg áhrif á verðlagningu þar sem slíkt sé meira og minna á valdi hins opinbera. „Þetta er mjög reglusett starfsemi, mikið af opinberum reglum og verðið er ákveðið samkvæmt þeim reglum. Þetta hefur verið þannig og verður þannig áfram,“ segir Jón.

Eigendurnir muni ekki sitja hjá

Ardian hefur lagt áherslu á langtímainnviðaverkefni og verið umsvifamikill í Evrópu. Jón bendir á að fyritækið hafi fjárfest í sambærilegum innviðum á Norðurlöndunum: „Ég held að við horfum ekki á þetta sem eitthvert vandamál. Að eigandinn sé að stórum hluta erlendur.“

Jón er þó ekki á því að hinir nýju eigendur muni leyfa Mílu að eiga sig algjörlega heldur muni þeir taka virkan þátt í stefnumótun fyrirtækisins. „Hann mun örugglega skipta sér að þessu en ég held að við munum bara njóta góðs af því. Fá þekkingu og fleira.“

mbl.is

Bloggað um fréttina