Hefur áhyggjur af innviðum Íslands

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hefur áhyggjur af innviðum Íslands …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hefur áhyggjur af innviðum Íslands og þróun í orkumálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hefur áhyggjur af því að Ísland sé smátt og smátt að missa yfirráð á grundvallarinnviðum landsins. Telur hann í því samhengi að ríkisstjórnin eigi að ganga lengra í að koma í veg fyrir söluna á Mílu til erlends sjóðsstýringarfyrirtækis.

Síminn hf. tilkynnti í vikunni að viðræður um sölu á dótturfélaginu Mílu til franska fyrirtækisins Ardi­an France SA væru langt komnar. Í nótt barst mbl.is svo fréttatilkynning um að Adrian hefði samið við Símann um kaup á Mílu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og sér um uppbyggingu og rekstur innviða fjarskipta á landsvísu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gefið út að málið sé á borði þjóðaröryggisráðs. Hefur þá verið ákveðið á vettvangi ríkisstjórnar að samgönguráðherra fari í samtal við Símann til að tryggja að gætti verði að hagsmunum þjóðarinnar.

Eigum að ganga langt í að verja innviðina

Sigmundur segir söluna ekki einungis varða þjóðaröryggi heldur einnig hvernig landið virki saman sem heild, hvort sem það eigi við um raforkusölu eða þjónustu með fjarskipti. Hefur hann þá áhyggju af því að Ísland sé að missa yfirráð á grundvallarinnviðum.

Þegar farið var í að styðja við útvíkkun ljósleiðarakerfisins þá var það út frá þeirri hugsun að þetta væri hluti af grunnþjónustu sem allir Íslendingar hefðu rétt á. Einn af kostunum við Ísland eru yfirráðin yfir helstu grunninnviðum og mér finnst að það megi ganga býsna langt í að verja þá,“ segir Sigmundur sem hefur áhyggjur af þróun orkumála hér á landi.

Nefnir hann þá meðal annars innleiðingu þriðja orkupakkans og umræður um sæstreng og vindorku. 

Gefur lítið fyrir svör ríkisstjórnar

Segir hann svör ríkisstjórnar, við fyrirspurnum um aðkomu hennar að sölunni, kerfisleg og telur hann að ganga þurfi lengra og stöðva kaupin. 

„Já mér finnst hún ætti að koma í veg fyrir sölu. Auðvitað má spyrja á móti hvort ekki hefði átt að koma í veg fyrir einkavæðingu grunnetsins til að byrja með. Kannski var það rétt að halda einhverju sameiginlegu en mér finnst það vera eðlismunur en ekki stigsmunur að selja þetta úr íslenskri lögsögu til erlends fyrirtækis sem er fyrir vikið með allt aðra hagsmuni heldur en sameiginlega hagsmuni Íslendinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina