Tvö önnur hlaðvörp brotið gegn lögum

Fallið var frá sektarákvörðun í báðum málunum.
Fallið var frá sektarákvörðun í báðum málunum.

Fjölmiðlanefnd hefur úrskurðað að tvö hlaðvörp hafi brotið gegn lögum um skráningarskyldu fjölmiðla, banni við viðskiptaboðum fyrir áfengi og banni við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi.

Fallið var frá sektarákvörðun í báðum málum.

Um er að ræða mál til viðbótar við það sem greint var frá í gær, þar sem Hjörvari Hafliðasyni var gert að greiða sekt sem nemur hálfri milljón króna fyrir brot í hlaðvarpi hans, Dr. Football.

Höfðu nefndinni borist ábendingar vegna hlaðvarpsins þar sem vakin var athygli á því að það væri ekki skráður fjölmiðill hjá fjölmiðlanefnd og að viðskiptaboð fyrir áfengi væru áberandi í hlaðvarpinu.

Hafa hætt starfsemi sinni

Mál hlaðvarpsins FantasyGandalf, sem síðar varð að The Mike Show, var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar sem barst þar sem athygli nefndarinnar var vakin á því að hlaðvarpið væri ekki skráður fjölmiðill hjá nefndinni.

Ábendingin var ítrekuð stuttu seinna og var þá jafnframt bent á að umfjöllun um veðmálafyrirtækið Coolbet, sem viðkomandi teldi vera ólögmæt viðskiptaboð, væru áberandi í hlaðvarpinu.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að hlaðvarpið hafði brotið lög um skráningarskyldu fjölmiðla og að brotið hafi verið á banni við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi.

Einnig hafi hlaðvarpið brotið gegn lögum um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi með umfjöllun um bjór í þætti hlaðvarpsins.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu þar sem að stjórnendur hlaðvarpsins brugðust við fyrsta erindi nefndarinnar. Einnig var tekið mið af því að hlaðvarpið hefur hætt starfsemi sinni.

Bárust kvartanir fyrir hönd Íslenskra getrauna

Mál hlaðvarpsins Steve Dagskrá var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar f.h. Íslenskra getrauna, þar sem kvartað var undan viðskiptaboðum fyrir vörumerki Coolbet á Íslandi.

Að mati kvartanda var um að ræða brot gegn lögum um að óheimil séu viðskiptaboð og fjarkaup fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að hlaðvarpið hafði brotið á skráningarkskyldu fjölmiðla og á banni við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi. Ákvað nefndin að falla frá sektarákvörðun þar sem hlaðvarpið brást við fyrsta erindi nefndarinnar og lét af þeirri hegðun sem var tilefni erindisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina