Útlenskir ökufantar kallaðir fyrir dóm

Fjölmargar hraðamyndavélar eru á vegum landsins.
Fjölmargar hraðamyndavélar eru á vegum landsins. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur með auglýsingum í Lögbirtingablaðinu birt fyrirkall og ákærur á hendur tíu erlendum ríkisborgurum fyrir hraðakstur á Suðurlandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Þá hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra birt fyrirkall og ákæru á hendur Íslendingi fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 13. ágúst 2020, ekið bifreið á 96 km hraða á klukkustund um Vesturlandsveg við Fiskilæk í Hvalfjarðarsveit, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

Af útlendingunum tíu eru fimm Bandaríkjamenn, einn Ítali, einn Þjóðverji, einn Spánverji, einn Breti og einn Færeyingur. Bifreiðar ökumannanna mældust á 110 til 152 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 90 km.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þeir eru kvaddir til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi. „Sæki ákærði ekki þing má hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brot það sem hann er ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum,“ segir í fyrirkallinu. Þar sem fáir útlendingar lesa Lögbirtingablaðið má búast við að þetta verði reyndin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert