Vildi að ríkið hefði tekið Mílu „til baka“

Halldóra Mogensen segir fjarskiptanet Mílu vera meðal grunninnviða sem eigi …
Halldóra Mogensen segir fjarskiptanet Mílu vera meðal grunninnviða sem eigi að vera í almenningseigu. mbl.is/Unnur Karen

Halldóru Mogensen, þingflokksformanni Pírata, þykir það ekki skipta máli hvort Míla sé í eigu erlendra eða innlendra fjárfesta heldur sé grundvöllur vandamálsins sá að fyrirtækið sé í einkaeigu. Hún segir kaup franska sjóðsstýringafyrirtækisins Ardien á Mílu hafa verið tækifæri fyrir ríkið til þess að kaupa fjarskiptainnviðina.

„Okkar afstaða er sú að það hafi verið mistök að selja á sínum tíma. Það er varhugavert að setja grunnþjónustu í hendur einkaaðila þar sem gróðasjónarmið vega þyngra en samfélagsleg sjónarmið. Ef við viljum ljósleiðara alls staðar á landinu þá verðum við að hafa samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi,“ segir Halldóra innt eftir viðbrögðum við fregnum næturinnar.

Segir fjarskiptainnviði vera byggðamál

Halldóra segir rekstur fjarskiptainnviða vera byggðamál: „Hvað ef það svarar ekki rekstri að hafa ljósleiðara á Vestfjörðum? Ef þetta er rekið einungis út af gróðasjónarmiðum þá geta þeir bara slökkt á netinu hvenær sem er. Þess vegna á þetta ekki að vera í einkaeigu.“

Jón Ríkharð Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að fyrirtækið gæti ráðist í miklar fjárfestingar eftir kaupin: „Já, ég sé að það er tækifæri til þess að eflast og sérstaklega gera meira fyrir fleiri fjarskiptafyrirtæki og hraðar. Ég er bara bjartsýnn á það að við getum eflt þetta fyrirtæki enn meira,“ sagði Jón og bætti því við að það væri á meðal verkefna að ljósleiðaravæða landsbyggðina.

Segir fyrirtækið vera í einokunarstöðu

Halldóra efast ekki um að Míla muni fá aukið fjármagn til uppbyggingar en er efins um þær hvatir sem búi að baki þeim: „Það getur vel verið. En þetta er samt fjárfestingasjóður og það er enginn að segja mér það að þeir séu að taka samfélagsleg sjónarmið fram yfir gróðasjónarmið og hagnað.“

Að sögn Halldóru er það þó ekkert aðalatriði hvort fjárfestar séu innlendir eða erlendir: „Það sem skiptir máli er að þetta á ekki að vera í einkaeigu. Það má heldur ekki gleyma því að þetta er selt fjárfestingasjóði sem er bara umhugað um peninga. Þeir sjá væntanlega fyrir sér nokkurs konar einokunarstöðu,“ segir Halldóra og bendir á að Míla eigi fimm af átta hlutum í eina heildstæða stofnneti landsins:

„Þetta er viss einokunarstaða sem er verið að bjóða upp á og þá verður maður að spyrja sig hvar þeir sjá gróða í þess. Bara það að einkaaðili geti hækkað verðið, geti takmarkað aðgengi að þessum grunninnviðum okkar, sem er grundvöllurinn að því að samfélagið okkar virki og við séum yfir höfuð samkeppnishæf sem land í heiminum, það er vandamál.“

Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Mynd úr safni.
Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Míla segir verðhækkanir ekki í myndinni

Jón Ríkharð segir það óþarfi að hafa áhyggjur af verðhækkunum: „Þetta er mjög reglu­sett starf­semi, mikið af op­in­ber­um regl­um og verðið er ákveðið sam­kvæmt þeim regl­um. Þetta hef­ur verið þannig og verður þannig áfram.“

Halldóra segir þessa sölu hafa verið tækifæri fyrir ríkissjóð. „Við ættum frekar að horfa til þess að þarna væri tækifæri til þess að taka þetta til baka, þetta á að vera í almannaeigu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert