Gamla bólverkið verður sýnilegra

Bólverkið. Það litla sem nú sést af gamla hafnarkantinum er …
Bólverkið. Það litla sem nú sést af gamla hafnarkantinum er vestasti hlutinn. Meira verður sýnilegt síðar meir af þessum merka garði, sem er elsta hafnarmannvirki Reykvíkinga. mbl.is/sisi

Unnið er að breytingum og lagfæringum á einu sögufrægasta húsi Reykjavíkur, Bryggjuhúsinu Vesturgötu 2. Margvísleg starfsemi hefur verið í þessu húsi í gegnum árin og enn fær það nýtt hlutverk, verður mathöll í miðbænum.

Það ber helst til tíðinda við breytingarnar núna að bólverkið, þ.e. gamli hafnarkanturinn norðan við húsið, verður gert sýnilegra en áður. Í dag er lítill hluti bólverksins sýnilegur, þ.e. sá vestasti. Bólverkið er hlaðinn grjótgarður sem reistur var um 1890 og liggur frá vestri til austurs eftir endilöngum reitnum, norðan við Bryggjuhúsið og Brydepakkhúsið. Bólverkið er elsta hafnarmannvirki í Reykjavík. Þetta er stórmerkilegt mannvirki, enda friðað. Verður fengur að því að það verði sýnilegra en verið hefur.

Nýtt deiliskipulag samþykkt

Á fundum skipulagsfulltrúa Reykjavíkur í haust hefur verið fjallað um umsókn Davíðs Kristjáns Chatham Pitt, f.h. Tvíeykis ehf., um breytingu á deiliskipulagi Grófarinnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Vesturgötu. Í breytingunni felst að gera svalir á bakhlið (norðurhlið) húss í porti ásamt flóttastiga, stækka geymslur undir hluta af svölum og gera bólverk (gamlan hafnarkant) sýnilegt að hluta, samkvæmt uppdráttum Davíðs Kr. Pitt arkitekts, dags. 25. júlí 2021. Tillagan var grenndarkynnt frá 16. september 2021 til og með 14. október 2021. Engar athugasemdir bárust. Breytt deiliskipulag var samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa 18. október síðastliðinn.

Bryggjuhúsið. Nú er unnið að viðgerðum og endurbótum á þessu …
Bryggjuhúsið. Nú er unnið að viðgerðum og endurbótum á þessu sögufræga húsi í hjarta borgarinnar. Þar er verið að innrétta mathöll. Þar sem stóri glugginn er var áður gangur í gegnum húsið. mbl.is/sisi

Húsið Vesturgata 2 er að sjálfsögðu friðað vegna aldurs. Í því felst að óheimilt er að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað, nema með leyfi Minjastofnunar. Leitað var til Minjastofnunar vegna breytinganna nú og tók hún jákvætt í þær. Segir í umsögn stofnunarinnar að litið sé til þess að húsið sé mikið breytt frá upphaflegri gerð og önnur hæð þess sé síðari tíma viðbót. Breytingin nú sé afturkræf og snerti aðeins bakhlið hússins. Hún raski ekki formi hússins eða ásýnd þess frá Aðalstræti. Gæta verði þess sérstaklega að ekki verði rask á bólverkinu og öðrum jarðföstum minjum í tengslum við framkvæmdir á baklóðinni.

Bryggjuhúsið var reist árið 1863. Upphaflegi hluti hússins stendur enn en það hefur verið stækkað í gegnum tíðina, húsið hækkað og byggt við það.

Í hinni gagnmerku ritröð Páls Líndal, Reykjavík, sögustaður við sund, kemur fram að það var C.P.A. Koch sem lét byggja húsið við norðurenda Aðalstrætis. Hann var einn af eigendum Sameinaða gufuskipafélagsins, sem gerði út skip í Íslandssiglingum.

Af hálfu bæjaryfirvalda var kvöð um opinn gang í gegnum húsið svo að aðgangur að bryggjunni norðan þess væri öllum opinn. Húsið var því eins konar borgarhlið og fóru margir sem komu með skipum til bæjarins í gegnum ganginn. Þessum gangi var lokað árið 1929. Fram hafa komið hugmyndir um að opna ganginn að nýju en af því hefur ekki orðið. Vegna staðsetningarinnar var húsið eins konar samkomustaður sjómanna í höfuðstaðnum.

Þessi mynd er tekin á árunum upp úr 1903 og …
Þessi mynd er tekin á árunum upp úr 1903 og sýnir bryggjurnar neðan við Grófina og Hafnarstræti.Bryggjuhúsið er lengst til hægri á myndinni og bólverkið framan við það sést vel. Duus-bryggjan gengur í sjó fram. Ljósmynd/Magnús Ólafsson

Upphaflega var húsið einlyft með portbyggðu risi. Yfir ganginum var stór kvistur, sem sneri að Aðalstræti. Næstu áratugina skipti Vesturgata 2 um eigendur og var húsið við þá kennt og sömuleiðis bryggjan norðan við húsið. Árið 1904 eignaðist Duus-verslun húsið og lét árið 1907 byggja einlyft og áfast pakkhús við það. Nathan & Olsen eignaðist Bryggjuhúsið 1927 og lét hækka það og gera tvíloftað. Enn síðar var pakkhúsið einnig gert tvílofta og urðu þá þessi tvö hús ein heild. Ýmsar breytingar og endurbætur hafa verið gerðar síðan þá.

Verslunarrekstur lengi

Margvíslegur verslunarrekstur var um langa hríð í Bryggjuhúsinu. Þar var Áfengisverslun ríksins starfandi og síðar vefnðarvöruverslun. Síðustu áratugina hefur verið rekin veitingastarfsemi í húsinu. Lengi var þar Kaffi Reykjavík en síðan 2007 Restaurant Reykjavík.

Bryggjuhúsið er einnig merkilegt fyrir þær sakir að það er núllpunktur Reykjavíkur. Tölusetning húsa tekur mið af Aðalstræti, elstu götu borgarinnar. Húsin eru talin frá Bryggjuhúsinu, jafnar tölur á hægri hönd og oddatölur á vinstri hönd. Það sama á við um Vesturgötuna. Skjöldur um þessa mikilvægu ákvörðun bæjarstjórnarinnar er greyptur í gangstéttina fyrir framan Bryggjuhúsið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »