Keyrði ekki á eina bifreið heldur tvær

Um 90 mál voru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Margar tilkynningar bárust lögreglu vegna hávaða og ölvunar.

Rétt fyrir klukkan hálf tíu barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp í Hlíðahverfi í Reykjavík. Tjónvaldurinn er grunaður um að hafa ekið á tvær bifreiðar. Lögreglan grunaði manninn um fleira, akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu. 

Nokkur fleiri mál þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undri áhrifum komu upp í gærkvöldi og í nótt. 

Þá barst lögreglu tilkynning um slys í miðbænum í nótt þegar erlendur ferðamaður hafði dottið um blómaker. Hann fékk áverka í andliti og var fluttur á bráðamóttöku. 

mbl.is