Sýkna Rapyd af 180 milljóna króna kröfu Jóhannesar

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd Europe hf. var á föstudag sýknað í Landsrétti af 180 milljóna króna kröfu Jóhannesar Inga Kolbeinssonar sem var einn af stofnendum Kortaþjónustunnar, sem síðar varð Korta og svo Rapyd Europe hf. 

Jóhannes var einn af stofnendum Kortaþjónustunnar árið 2002, einn af aðaleigendum hennar og framkvæmdastjóri lengst af. Honum var sagt upp störfum í byrjun árs 2018. Jóhannes taldi að hann ætti inni orlofslaun hjá fyrirtækinu og höfðaði hann mál til innheimtu þeirra og dagsekta, 500.000 króna á dag, vegna vanefnda. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Rapyd, sem þá var Korta, skyldi greiða Jóhannesi rúma 1,5 milljón ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum en að fyrirtækið yrði sýknað af kröfu um dagsektir. Sú fjárhæð hefur þegar verið greidd Jóhannesi, samkvæmt dómi Landsréttar. 

Ein úrlausn var því eftir fyrir Landsrétt, hvort greiða skyldi Jóhannesi dagsektirnar sem nema 180 milljónum króna. Landsréttur svaraði þeirri spurningu neitandi, rétt eins og héraðsdómur hafði áður gert . Ástæðan fyrir því var sú að vanefnd sem samið var um í starfslokasamningi væri hlutfallslega mjög lítil í samanburði við aðrar samningsskyldur vinnuveitandans. 

Eins og Héraðsdómur komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að dagsektarkrafa Jóhannesar hafi verið úr öllu hófi og engin efni væru til þess að líta svo á að vanefnd fyrirtækisins á að greiða Jóhannesi orlofslaunin væru slík að réttur til dagsekta hefði stofnast.

Rapyd var gert að greiða Jóhannesi 800.000 krónur í málskostnað.

Dómurinn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert