Ekki eitt einasta bólusett barn smitast

Börn bólusett í Laugardalshöll í síðasta mánuði.
Börn bólusett í Laugardalshöll í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert smit hefur greinst hér á landi hjá bólusettum börnum á aldrinum 12 til 15 ára, en tæplega 64 prósent þeirra eru nú fullbólusett. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Þannig er unnt að halda því fram að bólusetningin hjá þessum aldurshópi, sem hófst í ágúst, veiti 100 prósent vörn. Þau börn sem hafa smitast af Covid-19 og veikst að undanförnu hafa öll verið óbólusett.

Þess er vænst að fljótlega verði unnt að bjóða börnum á aldrinum 6 til 11 ára bólusetningu með bóluefni Pfizer. Rannsóknum er lokið og reiknað er með að leyfi fyrir notkun lyfsins fáist fyrir áramót.

Smit um helgina voru 214 en þeim hefur farið fjölgandi að undanförnu. Um 76 prósent landsmanna eru fullbólusett og í tilkynningunni segir að gera þurfi enn betur til að fyrirbyggja örari útbreiðslu og mikil veikindi, en um 34.400 einstaklingar, tólf ára og eldri, eru óbólusettir. 

Ellefu sinnum minni líkur á smiti

Einstaklingar 60 ára og eldri, sem voru fullbólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni Pfizer og fengu örvunarskammt, eru rúmlega ellefu sinnum ólíklegri til að smitast af Covid-19 en þeir sem ekki hafa fengið slíkan örvunarskammt. Eru þetta niðurstöður úr rannsókn sem gerð var í Ísrael og birt í The New England Journal of Medicine. 

Þá eru líkur á veikindum tuttugu sinnum minni eftir þriðju sprautu hjá þessum hóp. Með vísan til þessa mælir sóttvarnalæknir með örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri, heilbrigðisstarfsfólk, íbúa á hjúkrunarheimilum og tiltekna viðkvæma hópa. Gerð er grein fyrir þessum meðmælum á vef landlæknis. 

60 ára og eldri fá boð um að koma í örvunarskammt

Nú þegar hafa um 59 prósent heilbrigðisstarfsfólks fengið örvunarskammt, um 68 prósent íbúa hjúkrunarheimila og um 57 prósent annarra sem eru 60 ára og eldri.

Miðað er við að þeir sem eru 70 ára og eldri fái örvunarskammt að þremur mánuðum liðnum frá því að viðkomandi var fullbólusettur en að sex mánuðir líði fyrir þá sem eru á aldrinum 60 til 70 ára.

Heilsugæslan annast örvunarbólusetningar og munu allir sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíkt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina