Ferðafrelsi barna hefur minnkað 

Breski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Tim Gill.
Breski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Tim Gill.

Breski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Tim Gill segir að aukið þunglyndi og kvíði hjá börnum og ungmennum komi ekki á óvart þar sem þau fái ekki næg tækifæri til að reyna á sig. 

Markmiðið er að börn alist upp og verði sjálfstæðir og hæfir einstaklingar sem hafi þróað með sér seiglu og kunni að takast á við heiminn. Við erum öll sammála um þetta og líka að þetta sé best gert í litlum skrefum,“ segir Gill. 

Ég held að við séum í hættu á því að láta þessi seinni skref vera of stór og að við ætlumst til of mikils af unglingum. Það kemur mér ekki á óvart að það séu vaxandi vísbendingar um að unglingar þjáist í meira mæli af kvíða og þunglyndi en áður, segir Gill en eitt af því sem stuðli að þessari þróun sé að við leyfum börnunum ekki að takast á við hlutina á eigin spýtur nógu snemma. 

Þau fá ekki nægar áskoranir og þegar þau verða eldri lenda þau í vandræðum því þau hafa ekki tæki og tól til að takast á við aðstæðurnar. Frjáls leikur getur hjálpað börnum að vaxa og þroskast. 

Gill er talsmaður frjáls leiks og vill að börn geti notið sín í borgum. Nýjasta bók hans heitir The Urban Playground: How Child-Friendly Planning and Design Can Save Cities og í henni er varpað ljósi á þá fullyrðingu að það sem sé gott fyrir börn sé gott fyrir alla.  

Náttúrulegt leiksvæði í Ghent í Belgíu.
Náttúrulegt leiksvæði í Ghent í Belgíu. Ljósmynd/Wouter Vanderstede - Kind & Samenleving

En hvað er barnvænt borgarskipulag? Það vefst ekki fyrir Gill að svara því. Hann byrjar á tilvitnun í Enrique Peñalosa, fyrrverandi borgarstjóra Bógóta, höfuðborgar Kólombíu. Hann sagði: Börn eru viðmiðunartegund fyrir borgir. Ég tek því bókstaflega. Borgir og hverfi þar sem þar sem börn eru virk og sýnileg, þar sem þau nota rýmið utandyra, komast á milli staða með eða án foreldra sinna er merki um heilbrigði umhverfisins á sama hátt og ef þú sérð lax synda í á þá segir það eitthvað um heilbrigði þess vistkerfis, segir hann og útskýrir nánar. 

Barnvænleg borgarhönnun er hönnun sem hefur það að markmiði að gera börnum auðvelt að komast á milli staða og gefur þeim marga möguleika á því hvar og hvernig þau geta leikið utandyra, segir Gill. 

Afi mátti fara 10 kílómetra en barnabarnið 300 metra 

Góð borg fyrir börn er ekki aðeins borg með mörgum frábærum leikvöllum. Leiksvæði barna getur verið margt annað en leikvellir. Í borg fyrir börn þarf að taka niður girðingar og skapa spennandi svæði sem bjóða upp á leik og dvöl svo börn geti virkilega rannsakað umhverfi sitt og víkkað sjóndeildarhringinn, segir hann en það svæði sem börn fá að ferðast frá heimili sínu er stöðugt að minnka. 

Það eru margar rannsóknir sem sýna að sjóndeildarhringur barna hefur minnkað umtalsvert. Það eru til dæmis til rannsóknir á fjölskyldum þar sem rætt er við margar kynslóðir innan sömu fjölskyldunnar og fólk spurt hvert það mátti fara þegar það var átta ára. Það hefur orðið mikil breyting þar á síðustu ár. Fyrir tveimur eða þremur kynslóðum, næstum því hvar sem er í heiminum, óháð menningu og bakgrunni, bjuggu börn við mikið frelsi til að fara um umhverfi sitt. Þetta hefur núna nærri því alveg tapast hjá börnum, jafnvel allt að unglingsaldri, segir Gill. 

Þetta er þekkt rannsókn sem var gerð í Sheffield á Englandi. Ef litið er til einnar fjölskyldunnar sem tók þátt kemur í ljós að langafinn mátti átta ára gamall fara 10 km frá heimilinu til að veiða (1919), afinn mátti fara á einn um tvo kílómetra til að leika sér í skóginum (1950), mamman mátti ganga ein í sund í um 800 metra fjarlægð (1979) og sonurinn mátti fara á enda götunnar sem hann bjó við, tæpa 300 metra (2007). Þróunin er sláandi en Gill segir alls ekki mega líta á þetta sem óhjákvæmilega þróun. 

Nýjasta bók Gill heitir The Urban Playground: How Child-Friendly Planning …
Nýjasta bók Gill heitir The Urban Playground: How Child-Friendly Planning and Design Can Save Cities og í henni er varpað ljósi á þá fullyrðingu að það sem sé gott fyrir börn sé gott fyrir alla. 

Enginn settist niður og sagði: Mér finnst það frábær hugmynd að krakkar séu föst inni hjá sér allan daginn fyrir framan skjái. Aukin umferð er sú breyta sem hefur haft mest áhrif á líf barn. Fleira hefur breyst eins og fjölskyldumynstur og vinna, húsnæði, tækni, og menningarleg viðhorf. Margt fer þarna saman til að hafa áhrif á barnæskuna. En þetta er ekki óhjákvæmilegt. Í sumum löndum njóta börn ennþá frekar mikils frelsis, segir hann og nefnir þá helst Holland, sum norrænu löndin og Þýskaland. Mælikvarðar á það hversu gott það er að vera barn í borg er til dæmis hversu auðvelt það er fyrir börn að labba ein í skólann og hvað þau eru gömul þegar þau fara að labba ein í skólann. 

Það er enginn vafi á því að slæmt borgarskipulag er verst fyrir börnin. Ekki bara vegna hættu á slysum heldur líka vegna mengunar og skorts á frelsi í barnæsku, segir hann. 

Eitt af því áhugaverða í kringum barnvænlegt borgarumhverfi snýst um þéttleika og að átta sig á því að dreifða úthverfabyggðin sem mörgum finnst vera góð fyrir börnin er kannski ekki eins góð og við höldum. Allt verður of langt í burtu og þú verður að eiga bíl til að komast um. Þannig verður erfitt fyrir börn að komast sjálf á milli staða. Þetta hefur síðan áhrif á sjálfbærni og loftslagsmál, segir Gill en eitt af því sem hann skrifar um í bókinni er hvernig sjálfbært hverfi lítið út. 

Fyrir börnin og umhverfið 

Það er grænt og þétt. Það er auðvelt að komast á milli staða með hjóli eða gangandi. Svona sjálfbært hverfi líkist mjög barnvænu hverfi. Fyrir mér eru einhver sterkustu rökin fyrir því að við ættum að hugsa meira um að gera hlutina barnvæna er að það hjálpar að gera sýnilegt og styrkja rökin fyrir því að skipulag ætti að vera sjálfbærara, segir hann og bætir við að þetta hjálpi fólki að setja sig í aðrar stellingar. Það getur þá hugsað með sér - ég tapa kannski einhverju því það verður ekki eins auðvelt að fara á bílnum út um allt en börnin mín geta gengið í skólann, það eru græn svæði nálægt okkur og það verður ekki eins mikil umferð á götunni fyrir framan hjá mér, segir hann. 

Gönguvæn borg er betri fyrir börn en bílavæn borg, segir Gill og bætir við að einn viðmælandi hans í bókinni hafi bent á að það geri málstaðinn vænlegri fyrir stjórnmálamenn. Núna í London er mjög lífleg umræða um umferð í borginni og það á að draga úr umferð í íbúahverfum. Það eru margir reiðir vegna þess að þeir geta ekki keyrt bílnum sínum á staði sem þeir komust áður á bíl. Mín rök eru þau að ef við horfum til lengri tíma þá eru þessar breytingar sem við þurfum að gera góðar fyrir börnin og einmitt það sem við þurfum að gera, segir hann. 

Lokum götum og leikum okkur úti 

Hann nefnir verkefnið Play Streets í Bretlandi sem dæmi um verkefni sem stuðli að barnvænu umhverfi og komi frá grasrótinni. Það er eitthvað sem er ódýrt og auðvelt að gera. Íbúar standa saman og loka fyrir bílaumferð í götunni sinni nokkrar klukkustundir á viku, segir hann og útskýrir að ef einhver verði að komast þá séu honum auðvitað hleypt í gegn en þetta er svona hugmyndin. 

Þarna verður til pláss fyrir börn að leika sér úti. Þetta er eitthvað sem á sér reglulega stað, einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði, ekki bara á þjóðhátíðardaginn eða eitthvað slíkt. Það hefur sýnt sig að þetta sameinar samfélagið í hverfinu og gefur nágrönnum tækifæri til að kynnast og byggja upp nágrannaanda. Þetta plantar líka ákveðnu fræi með því að sýna hvernig götunar okkar geta verið öðruvísi. Þú sérð með eigin augum að börn geta vel leikið sér á skemmtilegan hátt bara ef þau fá pláss, vini, nokkur leikföng og hjólin sín. Þau þurfa ekki dýra leikvelli heldur geta börn leikið sér frá náttúrunnar hendi næstum hvar sem er, segir hann en verkefnið snýst um að láta börn leika sér úti og er hægt að lesa meira á playingout.net. 

Hversu mikilvæg er tengingin við náttúruna í borgarumhverfinu? 

Ég tala gjarnan um náttúruna í hversdeginum. Hún er nauðsynlegt innihaldsefni í góðri barnæsku. Börn þurfa að hafa staði þar sem þau geta fengið mold á puttana, fundið fyrir veðrabreytingum, séð skordýr og þar sem öll skynfæri þeirra fá tengingu við náttúruna. Það er eitthvað sem er auðvelt að hafa í hverfum. Það má ekki gleyma að börn eru minni en við. Það þarf ekki að fara með þau í þjóðgarð eða óbyggðir til að þau nái að fá að upplifa fjölbreytni og undur náttúrunnar, segir hann. 

Gill er hrifinn af svokölluðum náttúruleik. Börnum finnst gaman að leika sér með náttúruleg efni eins og sand, vatn, mold, greinar og lauf. Þessir þættir geta fléttast inn í leikvelli á skemmtilegan hátt. Ég er mikill aðdáandi danska landslagsarkitektsins Helle Nebelong. Hún er mikil listakona og hefur skapað virkilega falleg, náttúruleg leiksvæði. Skemmtilega staði sem treysta ekki á fjöldaframleidd leiktæki heldur steina, plöntur og fleira sem hún fléttar inn í hönnunina. Þetta er öflug leið til að vefa náttúrunni inn í umhverfi barna, segir hann. 

Stofufangelsi í Covid 

Heimsfaraldur Covid-19 getur átt þátt í því að hjálpa fullorðnu fólki að setja sig í spor barnanna. 

Við vitum öll núna hvernig tilfinning það er að vera fastur inni á heimilinu. Börn hafa þurft að sætta sig við sífellt meira stofufangelsi síðustu 30-40 ár. Ég vona að eitt af því fái góða sem komi út úr þessum heimsfaraldri sé að fullorðna fólkið fái innsýn í hvað það þýðir fyrir börn að vera svipt þessu hversdagslega frelsi, að langa að fara út að hitta vini sína en geta það ekki. 

Börnin hafa tæknina og stafræna heiminn til umráða en það er ekki nóg segir Gill. Einhverjir fullorðnir hugsa kannski að tæknin komi í staðinn. Og það er satt að stafrænt líf barna skiptir þau miklu máli, ekki síst félagslíf þeirra á netinu. En börn þurfa að hitta vini sína í eigin persónu. 

Annað sem hafi gerst í Covid sé að fólk kunni betur að meta grænu svæðin í kringum sig og ástandið hafi ýtt undir skilning á því hversu mikilvægir hjóla- og göngustígar séu. Fólk kann betur að meta þessa þætti og líka hverfisbúðir og aðra þjónustu innan seilingar. Þetta varð allt svo mikilvægt þegar við þurftum að lifa lífinu nær heimilinu, segir Gill sem óttast samt að við eigum ekki eftir að læra nóg á heimsfaraldrinum og missa af tækifæri til breytinga. 

Mörg vandamál snúa að ofneyslu 

Ég hef áhyggjur því hér í Bretlandi virðist öllum liggja lífið á að lífið verði aftur venjulegt. Ég hef áhyggjur af því að við notum ekki þessa innsýn inn í framtíðina, að við notum ekki vitneskjuna um hversu mikilvæg hverfissvæðin eru heldur snúist allt um að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang, efnahagslífinu eins og það var. Svo mörg af vandamálum okkar í dag snúa að ofneyslu, að við kaupum og notum of mikið af dóti, segir hann. Það er margt gott að gerast í Bretlandi hvað varðar loftslagsmál en það snýst meira um næstu 20 ár en faraldurinn gefur okkur tækifæri til að flýta þessu ferli. 

Hann segir að eitt af því sem muni raungerast sé að fleiri vinni heiman frá sér í framtíðinni og það þýði færri að ferðast á á milli staða á hverjum degi og fleiri sem lífi lífinu meira í hverfinu sínu. Það er áhugavert og opnar á ýmsa möguleika. Kannski er ég of svartsýnn! 

Ítarlega er rætt við Tim Gill í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og er nánar farið yfir hvað þarf til að borg teljist barnvæn. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »