Fjórir sjúklingar á Landspítalanum smitaðir

Fjórir hafa greinst með COVID-19 á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild …
Fjórir hafa greinst með COVID-19 á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild 12G. Ljósmynd/mbl.is

Á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild 12G á Landspítala hefur nú greinst Covid-19 smit hjá fjórum sjúklingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Rakning og skimun stendur yfir meðal sjúklinga, aðstandenda og starfsmanna en ekki er vitað á þessari stundu hvernig smitið barst inn á deildina. Deildin er lokuð fyrir innlögnum og heimsóknum.

Á Landspítala eru enn í gildi reglur um grímuskyldu og fjarlægðartakmörk ásamt persónulegum sóttvörnum. Ættingjar eru beðnir um að koma ekki á spítalann sýni þeir einkenni Covid-19 og grímuskylda gildir um þá.

Um nýliðna helgi var 21 tilvik þar sem fólk með tengsl við Landspítala greindist með sjúkdóminn og krafðist það rakningar og eftir atvikum einangrunar eða sóttkvíar.

mbl.is