Mun ekki semja um útvíkkun á dagvinnutíma

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, kveðst hafa áhyggjur af því að markmið hinna nýju hagsmunasamtaka fyrirtækja, Atvinnufjelagsins, sé ekki jafn göfugt og það hljómi. 

„Mín tilfinning er sú að stefna þessa nýja félags sé að útvíkka dagvinnutímabilið,“ segir Ragnar. Hann bendir á að veitingageirinn hafi kallað eftir því að dagvinna nái yfir a laugardag og jafnvel seinna á kvöldin. 

Það komi ekki til greina að semja um slíkt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. „Við erum ekki að fara að gefa eftir réttindi sem kynslóðirnar á undan okkur hafa áunnið sér með blóði, svita og tárum.“

Fyrirtæki misjafnlega vel sett

Ragnar tekur þó fram að ekkert hafi komið inn á borð til VR ennþá sem gefi tilefni til að taka afstöðu varðandi félagið. Í gildi eru kjarasamningar til 1. nóvember 2022 við Félag atvinnurekenda og Samtök atvinnulífsins, sem Ragnar telur nokkuð vel heppnaða. 

Hann segir VR byrjað að undirbúa kröfugerð fyrir næstu kjarasamninga, en staðan sé snúin. Mörgum fyrirtækjum gangi mjög vel, metafkoma verslana, fyrirtæki hafi verið skráð á markað og launakostnaður orðinn lægra hlutfall af veltu.

Þá séu önnur fyrirtæki í sárum eftir heimsfaraldurinn. Það sé því áskorun að smíða góðan kjarasamning. 

Ef öðrum yrði hlíft yrði að sækja að hinum

„Við erum með samningsumhverfi þar sem hækkanir ná yfir allan markaðinn óháð stöðu fyrirtækja, hvort þetta sé besta formið veit ég ekki en við erum fyrst og fremst að vernda hagsmuni okkar félagsmanna.“

Ef breyta ætti samningsumhverfinu þannig að ákveðnum starfsgreinum yrði hlíft, yrði verkalýðshreyfingin að sækja meira á þær sem hafa meira svigrúm, að sögn Ragnars. 

Kemur ekki heim og saman við síðustu samninga

„Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki eru sjaldn­ast að borga lág­marks­laun. Þau eru oft­ast ef ekki bara alltaf að borga hærra en það, þannig að flat­ar launa­hækk­an­ir eru að koma ofan á laun sem eru hærri en lág­marks­laun. Kjara­samn­ing­ar þurfa að taka mið af því um­hverfi sem við búum við í dag,“ sagði Sig­mar Vil­hjálms­son í samtali við mbl.is um Atvinnufjelagið.

Ragnar telur þessa staðhæfingu ekki koma heim og saman við síðustu samninga sem gerðir voru. „Grunnlaunin hækkuðu meira en almennar hækkanir, sem ætti einmitt að tala inn í það sem hann er að segja.“

Ósætti í atvinnulífinu

Ef ósætti er innan fyrirtækjageirans með vinnubrögð SA og FA er það innanbúðarmál hjá atvinnulífinu, að mati Ragnars. Hann bendir á að Atvinnufjelagið yrði að hafa gildan kjarasamning til að geta starfað. 

„Hvort atvinnurekendur leysi sín mál ef það er innri óánægja þar, mun koma í ljós, það er því ómögulegt að segja til um hvort þriðja félagið bætist við í viðræðurnar í vor en kröfugerðin okkar verður tilbúin þá.“

Þá nefnir Ragnar einnig að það sé athyglisvert að mótframbjóðandi hans til formannsstöðu stéttarfélagsins VR, sé nú meðal stjórnarmeðlima í hagsmunasamtökunum, Atvinnufjelaginu.

mbl.is