Tal um verðhækkanir ýti undir verðhækkanir

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins varar við því að tal um verðhækkanir ýti …
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins varar við því að tal um verðhækkanir ýti undir óþarfa verðlagshækkanir. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hætt er við að umræða frá hendi forsvarsmanna hagsmunasamtaka fyrirtækja um komandi verðhækkanir greiði veginn fyrir óþarfa verðlagshækkunum, að mati Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Hann dregur ekki í efa að erfiðar aðstæður kunni að skapast vegna hækkandi hrávöruverðs, erfiðleika í aðfangakeðjunni og vöruskorts. Fyrirtæki hafi engu að síður fleiri aðferðir til að bregðast við slíkum ytri aðstæðum en að hækka vöruverð, til dæmis að grípa til hagræðingar, en hagsmunasamtökin þurfi einnig að minnast á slík úrræði í umræðu sinni.

Skipst á höggum

Samkeppniseftirlitið sendi frá sér tilkynningu á föstudag þar sem forsvarsmenn hagsmunasamtaka fyrirtækja voru varaðir við þátttöku í fjölmiðlaumfjöllun um hækkandi verðlag.

Í framhaldinu sendu Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð Íslands (VÍ) frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau gagnrýndu Samkeppniseftirlitið fyrir að ganga gegn upplýstri samfélagslegri umræðu og héldu því fram að ekkert í samkeppnislögum bannaði þátttöku þeirra í slíkri umræðu.

Páll segir yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins ekki þrengja að tjáningarfrelsi samtakanna með nokkrum hætti heldur lúti ábendingin að því með hvaða hætti þau taka þátt í umræðunni þegar verðlag er annars vegar.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Samkvæmt tólftu grein samkeppnislaga er samtökum fyrirtækja óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana,“ segir Páll. Því verði hagsmunasamtök að fara gætilega þegar þau tjá sig um verð, svo þau gefi ekki í skyn eða boði hækkandi verðlag. „Þetta tengist umræðunni um fákeppni en það þarf lítið til að umræða af þessu tagi geti haft óheppileg áhrif fyrir neytendur.“

Páll undirstrikar þó að Samkeppniseftirlitið sé ekki að leggja mat á hvort farið hafi verið á svig við lögin hingað til, heldur fyrst og fremst að minna samtökin á að gæta að sér.

„Það er ekki vanþörf á, en viðbrögðin gefa til kynna að þau séu ekki nógu vel að sér í þessum reglum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert