Telur að gæsaskytta hafi drepið hrossin

Baldur Eiðsson.
Baldur Eiðsson. Ljósmynd/Aðsend

Baldur Eiðsson, húsasmíðameistari og hrossaræktandi í Lindartúni í Landeyjum, hefur kært til lögreglunnar dauða tveggja hrossa sem hann gekk fram á í síðustu viku er þau lágu dauð í túninu.

„Hún var hérna áðan að taka myndir og skoða þetta,“ segir Baldur og bætir við að rannsóknarlögreglumaður frá Selfossi sé einnig væntanlegur, en Vísir greindi fyrst frá málinu.

Hann telur að hrossin hafi verið skotin af gæsaskyttu sem var á veiðum í nágrenninu með riffil að vopni í stað haglabyssu eins og venjan er þegar veitt er af stuttu færi.

Blæddi úr brjóstkassanum

Að sögn Baldurs voru hrossin skotin til bana fyrir sjö til tíu dögum. Síðasta föstudag sá hann þau liggja í jörðinni þegar hann var að smala. „Ég gerði ekkert í þessu á þeim tímapunkti því ég hafði ekkert í höndunum, nema að ég er gamall slátrari og veit að svona er ekki nema þau séu skotin. Hross sem deyja sjálfkrafa, það blæðir ekki úr brjóstkassanum á þeim,“ segir hann og á við þriggja vetra stóðhestinn sem hann fann liggjandi í túninu. Bæði hrossin hafi dottið niður hreyfingarlaus og virtist blæða úr nösunum á þeim.

Hundskammaði skyttuna

Það var síðan í gær sem Baldur hitti nágranna sinn, pípulagningarmanninn Þórð Kárason, sem hreyfing komst á málið því Þórður kvaðst hafa hitt gæsaskyttuna á gæsaskytteríi með stóran riffil. „Hann sagðist hafa hundskammað hann.“  Nágranninn tók niður bílnúmer skyttunnar og ætlar lögreglan að hafa uppi á manninum. Gæsaskyttan sagðist hafa verið með leyfi fyrir veiðunum en Baldur gefur lítið fyrir það.

Undan Ellerti frá Baldurshaga

Hann segir tjónið mikið vegna stóðhestsins sem var „undan hinum litfagra og heimsfræga Ellerti frá Baldurshaga, ýruskjótta, en sjálfur var hann móálóttur“. Markmiðið var að gá hvort það kæmi ýruskjótt undan einlitum en til stóð að fara að temja hann.

Hitt hrossið var folald sem átti að fara í sláturhúsið. Tjónið vegna þess var því fyrst og fremst tilfinningalegt, að sögn Baldurs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert