Vilja Herjólf á Breiðafjörðinn

Gamla skipið er í Eyjum og bíður eftir nýju hlutverki.
Gamla skipið er í Eyjum og bíður eftir nýju hlutverki. mbl.is/Sigurður Bogi

Þungi er settur í samgöngumál í ályktunum þings Fjórðungssambands Vestfjarða sem haldið var á Ísafirði um helgina. Sveitarstjórnarmenn vestra telja mikilvægt að fá nýja ferju til siglinga yfir Breiðafjörð í stað þess Baldurs sem nú er í útgerð. Núverandi ferja anni ekki eftirspurn og öryggi farþega sé ekki tryggt.

Að mati Fjórðungssambandsins verður ekki unað við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að framlengja gildandi samning við Sæferðir – jafnvel fram til vors 2023 – um að núverandi ferja verði áfram notuð til siglinga yfir fjörðinn. Skýr krafa sveitarfélaga á Vestfjörðum sé að útbúa gamla Herjólf svo að skipið geti lagst að bryggju í Flatey á Breiðafirði og á Brjánslæk – og verði notaður í Breiðafjarðarferðir uns ný ferja fæst. Gamli Herjólfur hefur síðastliðin tvö ár verið bundinn við bryggju í Eyjum og er til þrautavara fyrir ferjuna sem kom 2019.

Ferjan er grunnstoð

Fyrirséð þykir að nú þegar Dýrafjarðargöng eru tilbúin og unnið er að vegagerð á Dynjandisheiði muni umferð um sunnanverða Vestfirði aukast. Í því efni eru ferjan Baldur og siglingar hennar að mati Fjórðungsþings grunnstoð í samgöngumálum Vestfirðinga. Þau verði líka að skoðast í samhengi við atvinnuhætti.

Tilgreind er í ályktunum þörf á vegabótum og jarðgangagerð auk þess sem Vegagerðin þurfi að efla vetrarþjónustu. Lokanir vega vegna veðurs og núverandi skipulag vetrarþjónustu sé hindrun. Fiskeldið vestra skili milljörðum króna í verðmæti í þjóðarbúið. Innan fimm ára megi reikna með að ársframleiðsla í sjókvíaeldi á svæðinu verði yfir 50 þúsund tonn, helmingi meiri en nú. Flutningar afurða og aðfanga muni því enn aukast. Viðhald og endurbætur vegakerfisins þurfi að taka mið af því. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert