Ætlaði að stela 20 hálfs kílós smjörstykkjum

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla stöðvaði mann skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöld, þegar hann var í þann mund að yfirgefa verslun í Kópavogi með smjörstykki að andvirði 11.920 króna í bakpoka sínum – ein 20 500 gr. stykki.

Vettvangsskýrsla var gerð um málið, eins og segir í tilkynningu lögreglu, og af því má ráða að maðurinn hafi verið frjáls ferða sinna eftir það.

Þar að auki var tilkynnt um þjófnað í verslun í Hafnarfirði snemma í gærkvöldi. Þjófurinn hafði komið stolnum vörum fyrir í bíl vinar síns sem tjáði lögreglu að hann hafi ekki vitað að vörunum hafi verið stolið.

Þeim var að lokum skilað í hillur verslunarinnar og var vettvangsskýrsla rituð um málið.

Þá var maður handtekinn um kvöldmatarleytið í gær eftir að hann gekk ofurölvi inn í eldhús veitingastaðar í Grafarvogi og var ógnandi við starfsfólk. Hann var sökum ástands vistaður í fangageymslu.

Svipað mál kom upp í Hlíðunum eldsnemma í morgun þar sem maður var handtekinn ofurölvi í verslun, eftir að hafa verið gómaður við búðarhnupl. Hann var látinn gista í fangageymslu sökum ástands síns.

Ung kona var svo handtekin miðsvæðis í Reykjavík í gær grunuð um umferðaróhapp, eins og það er orðað í tilkynningu lögreglu. Hún reyndi að stýra rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og ók eftir akbraut á móti umferð þar sem lögregla var við eftirlit. Hjólinu ók hún loks á lögreglubifreiðina svo að hún skemmdist. Ekki urðu slys á fólki. Hún var því færð niður á lögreglustöð þar sem úr henni voru tekin blóðsýni og var hún látin laus að því loknu.

Fleiri umferðarlagabrot komu til meðferðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær þar sem ökumaður var stöðvaður í hverfi 108 eftir að hafa ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Maðurinn þvertók fyrir að hafa gerst brotlegur þrátt fyrir að myndbandsupptaka lægi fyrir af brotinu.

Auk þess voru alls fjórir ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn var sviptur ökuréttindum fyrir vikið og annar ók án réttinda.

mbl.is