Fauk undan einkaþotu í Reykjavík

Vesturbæingurinn Árni Freyr Magnússon festi merkilegt atvik á filmu sunnudaginn 17. október þegar maður fauk af gangstétt niður á götu vegna loftstreymis úr hreyfli Bombardier Global 5000 þotu rétt fyrir flugtak á Reykjavíkurflugvelli.

Árni kveðst vera áhugamaður um flug og þar sem vélar af þessari stærðargráðu væru sjaldséðar á vellinum hafi hann ákveðið að reyna að ná myndbandi af flugtakinu. Hann var ekki einn um það. Annar áhugamaður hafði lagt bílnum í vegkanti Suðurgötu og stillt sér upp fyrir aftan vélina vopnaður myndavél.

Hörfaði rakleitt út í bíl

Þegar hreyflar vélarinnar fóru síðan í gang fékk hann loftstreymið beint í fangið og fauk aftur fyrir sig alla leið niður á Suðurgötu. Hann hörfaði þá rakleitt út í bíl en virðist af myndbandi Árna að dæma ekki kenna sér meins. 

Árni birti myndbandið fyrst á hópnum Fróðleiksmolar um flug en veitti mbl.is leyfi til að birta það. „Þetta var sunnudaginn fyrir viku í lok Artic Circle-ráðstefnunnar. Ég fletti upp númerinu á þotunni og hann á þessa hann Larry Silverstein sem er eigandi World Trade Center,“ segir Árni.

„Ég ákvað að ná þessu upp á myndband. Ég hef ekki séð svona stóra þotu fara á loft á þessum stað en stóru vélar Flugfélags Íslands taka á loft hérna í þessum hluta og þá er ekkert vesen fyrir fólk sem er að labba eða svoleiðis. Enda hef ég aldrei heyrt af því áður að fólk sé að lenda svona illa,“ segir Árni sem vonar að maðurinn í myndabandinu hafi ekki slasast við fallið.

Vélin er af gerðinni Bombardier Global 5000.
Vélin er af gerðinni Bombardier Global 5000. Skjáskot
mbl.is