„Mjög óheppilegt“ ef sjúklingarnir fá einkenni

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild. Ljósmynd/Lögreglan

Sjúklingarnir sem greinst hafa með Covid-19 á hjartaskurðdeild Landspítalans síðastliðna tvo daga eru að jafna sig eftir opna hjartaaðgerð. Mjög óheppilegt væri fyrir þá að fá mikil öndunarfæraeinkenni í ofanálag. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Með laust bringubein eftir aðgerð

Hann segir smitið líklegast hafa komist inn á deildina með heimsókn aðstandanda sjúklings, inntur eftir því.

„Það bendir allt til þess að þetta sé utanaðkomandi smit sem hefur farið í sjúkling og breiðst svo út til annarra sjúklinga.“

Þegar fyrsta smitið greindist á deildinni hafi allir sjúklingar og starfsmenn hennar verið skimaðir. Sex eru nú með virkt Covid-19 smit á deildinni, þar af fimm sjúklingar og einn starfsmaður, að sögn Más.

„Við reynum alltaf að skima í kring til þess að skilja atburðinn svo við getum komið í veg fyrir frekari útbreiðslu. Það er búið að skima að minnsta kosti þrjátíu starfsmenn og tugir manna sem þurfa að fara í sóttkví.“

Allir hinna smituðu eru bólusettir og líðan þeirra góð eftir atvikum, að sögn Más.

„Sjúklingarnir eru að ná sér eftir aðgerð og eru ekki orðið svo mikið veikir af Covid. Nú erum við bara að leita til þess að draga úr líkunum á því að þetta fólk fái mikil einkenni því það er búið að fara í opna hjartaaðgerð, er þá með laust bringubein og ef það fengi mikil öndunarfæraeinkenni þá væri það mjög óheppilegt.“ 

Róðurinn á Landspítalanum þyngist

Þegar smitin greindust hafi deildin verið hreinsuð, fólk ýmist einangrað eða fært til og lokað var fyrir innlagnir.

„Við munum flytja væntanlega sjúklinga inn á smitsjúkdómadeildina og taka hana eingöngu undir Covid.“

Már segir stöðuna á Landspítalanum vera þunga. Margir liggi inni á bráðamóttökunni og „allar stöðvar fullar“.

„Þannig við erum bara í fremur þungum róðri. Inni á barnaspítalanum er einnig farið að gæta árstíðarbundinna veirusýkinga sem þyngir róðurinn ennþá frekar.“

mbl.is