Telur sönnunarskort veigamikinn þátt

Sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, telur sönnunarskort veigamikinn þátt í …
Sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, telur sönnunarskort veigamikinn þátt í því að rannsóknir lögreglu á byrlunarmálum hafi aldrei leitt til ákæru. Eggert Jóhannesson

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, telur sönnunarskort veigamikinn þátt í því að rannsóknir lögreglu á byrlunarmálum hafi aldrei leitt til ákæru. Hún segir lögregluna þó ávallt líta slík mál mjög alvarlegum augum.

Sýna þurfi fram á ásetning geranda

Ef brotaþola er byrluð ólyfjan í þeim tilgangi að hafa kynmök við hann þegar honum er ekki sjálfrátt telst það vera nauðgun, að sögn Huldu.

„En í nauðgunarákvæðinu er að finna rýmkaða skýringu á ofbeldi þar sem til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Sýna þarf þá til dæmis fram á ásetning geranda til þess að koma brotaþola í þannig ástand að honum sé ekki sjálfrátt,“ segir hún. 

Hulda hefur að eigin sögn minnst tvisvar ákært fyrir brot af þessu tagi í tíð sinni sem saksóknari hjá ríkissaksóknara. Í öðru málinu hafi ekki tekist að sanna að brotaþola, sem var 14 ára á þeim tíma, hafi verið byrlað ólyfjan. Þó hafi verið fallist á brot á öðru ákvæði í málinu, þ.e. kynferðisbrot gegn barni.

„Í ákæru kom fram að ákærði hefði gefið brotaþola fíkniefni og smjörsýru svo honum varð ekki sjálfrátt og í kjölfarið brotið gegn barninu kynferðislega. Hitt málið varðaði mann sem misnotaði systur sína með þessum hætti en hann játaði sök.“

Sjálfstætt ákvæði um byrlun ekki til

Þótt erfiðlega hafi tekist að sýna fram á nauðgum með þeim hætti sem að ofan greinir, þ.e. að gerandi komi brotaþola í það ástand að honum er ekki sjálfrátt, segist Hulda vita til þess að ákæruvaldið hafi að öðrum kosti ákært fyrir misneytingu eins og það var kallað fyrir gildistíð núgildandi laga en er nú kallað nauðgun.

„En þá þarf ekki að sýna fram á þennan ásetning geranda til að koma brotaþola í það ástand að honum sé ekki sjálfrátt. Þá dugar að sýna fram á ásetning geranda til að misnota sér aðstæður, þ.e. hafa kynmök við brotaþola sem er ekki fær um að veita samþykki vegna ástands síns.“ 

Lögreglan hefur reglubundið eftirlit með næturlífinu í borginni um helgar.
Lögreglan hefur reglubundið eftirlit með næturlífinu í borginni um helgar. mbl.is/Ari

Innt eftir því segir hún ekkert sjálfstætt ákvæði um byrlun einstaklinga með ólyfjan vera til, þ.e. þegar fólki er byrlað ólyfjan án þess að sýnt sé fram á tilgang og afleiðingar. Samkvæmt ákvæði 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varði sú háttsemi að koma manni í það ástand að hann sé án bjargar þó allt að átta ára fangelsisvist.

„Ég hef heyrt í umræðunni að menn séu einnig með líkamsárásarákvæðin í huga, en þar kemur á móti að ekki er endilega víst að dómstólar fallist á svo rúma skýringu á hugtakinu ofbeldi, sbr. það sem áður segir um skýringu hugtaksins ofbeldi í nauðgunarákvæðinu þar sem ákvæðið ber með sér að skýra beri hugtakið rúm þegar um kynferðisbrot er að ræða. Erfitt er hins vegar að fullyrða um slíkt enda hefur ekki reynt á þetta svo ég viti til.“

Mikilvægt að tilkynna grun um byrlun strax

Hún segir lögregluna líta þessi mál mjög alvarlegum augum og að það sé gríðarlega mikilvægt taka málunum strax föstum tökum og rannsaka þau eins og hægt er. 

Lykilatriðið, þegar grunur er um að einstaklingi hafi verið byrluð ólyfjan, er að hafa strax samband við lögreglu og fara með einstaklinginn á bráða- eða neyðarmóttöku svo unnt sé að taka blóð- og þvagsýni.

Þá segir hún spítalann ekki greiða fyrir þessar rannsóknir en ef fólk hefur samband við lögreglu þá sé hvert tilvik skoðað og rannsókn á blóði og þvagi framkvæmd eftir atvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert