Viðbrögðin segi mikið um samband við neytendur

Magnús Hafliðason er forstjóri Domino's á Íslandi.
Magnús Hafliðason er forstjóri Domino's á Íslandi. Samsett mynd

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi, segist ekki muna eftir öðrum eins áhuga á verðhækkun eins og raunin var í dag en keðjan vinsæla hækkaði verðið á þriðjudagstilboðinu sínu úr 1.000 krónum í 1.100.

Neytendum býðst því að velja þrjú álegg á pizzu í miðstærð fyrir 1.100 krónur en Magnús segir ákvörðunina ekki hafa verið tekna í fljótfærni: „Þetta er sama erfiða valið og við stóðum fram fyrir á sínum tíma þegar megavikan var hækkuð upp úr þúsund krónum eins og hún var fyrstu átta árin. Við náðum tæplega 11 árum núna í 1.000 krónum sem verður bara að fagna.“

Kominn tími á hækkun

Magnús var ráðinn forstjóri í apríl á þessu ári en hefur starfað í og í kringum fyrirtækið síðustu 22 árin þ.á.m. sem fram­kvæmda­stjóri Dom­in­o's í Dan­mörku 2006-2007, rekstr­ar- og markaðsstjóri á Íslandi 2011-2014, fram­kvæmda­stjóri Dom­in­o's í Nor­egi 2014-2017 og sér­fræðing­ur í rekstr­ar- og markaðsmá­l­um á er­lend­um mörkuðum Dom­in­o's Pizza Group á ár­un­um 2018-2019.

Spurður hvers vegna verðið hafi hækkað í þessari viku segir Magnús engan einstakan þátt hafa ráðið tímasetningunni:

„Í sjálfu sér ekki, vissulega vissi félagið að þetta myndi einhvern tímann hækka. Það hefur alltaf legið ljós fyrir, enginn svona verðpunktur stendur að eilífu. Ég held að ég geti fullyrt það að er engin vara eða þjónusta í íslensku samfélagi sé á sama verði og hún var fyrir 10 árum síðan. Ég segi bara geri aðrið betur. Það eru náttúrulega búnar að vera heilmiklar hækkanir á ýmsum kostnaðarliðum og eru að koma á næstunni nánast þvert á allan rekstur og það er eitthvað sem ég tel flesta vera að finna fyrir í sínum rekstri svo við töldum bara núna vera kominn tími á að hækka þetta vinsæla tilboð.“

Telur ólíklegt að dragi úr sölu 

Magnús telur ekkert benda til þess að sala á tilboðunum vinsælu lækki á næstunni, að minnsta kosti bendi áhuginn á verðhækkuninni ekki til þess:

„Ég held að viðbrögðin og áhuginn á þessari verðhækkun segi mikið um okkar góða og sterka samband við íslenska neytendur. Það er engum blöðum um það að fletta. Ég man ekki eftir verðhækkun sem hefur fengið jafn mikla athygli og þessi. Að minnsta kosti ekki síðustu misseri og þær hafa verið ófáar.“

mbl.is