Ábyrgðin hjá sveitarfélögum og félagsmálaráðuneyti

Örrygis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi.
Örrygis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi. Eggert Jóhannesson

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að sjúklingar réttargeðdeildar á Kleppi bíði mánuðum og misserum saman eftir viðeigandi úrræðum. Ábyrgðin hvílir á sveitarfélögum og í sumum tilfellum félagsmálaráðuneyti, að því er fram kemur í skriflegu svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is.

Umboðsmaður Alþingis sendi fyrirspurn um gögn­ sem varða vist­un sjúk­linga á ör­ygg­is­gangi rétt­ar­geðdeild­ar á Kleppi frá októ­ber 2018 til júní 2021.

Í svari Landspítala kom fram að á því tímabili voru samtals fimm sjúklingar sem vistaðir voru á öryggisgangi á Kleppi. Þar af einn sem dvaldi alls í þrjá daga án rýmkunar og einn í samtals 572 daga, með og án rýmkunar.

Voru þá fjögur tilfelli þar sem sjúklingar dvöldu í yfir 20 daga samfellt á öryggisgangi án rýmkunar, að því er lesa má úr svari Landspítala við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis.

Tafla yfir dvöl á öryggisgangi sem birt var í svari …
Tafla yfir dvöl á öryggisgangi sem birt var í svari við fyrirspurn umboðsmanns. Tafla/Landspítali

25 dagar án rýmkunar

Í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is kemur fram að sjúklingurinn sem dvaldi hvað lengst á öryggisgangi, eða í 572 daga, varði 25 dögum á öryggisgangi án rýmkunar. Þá var hann í aðra 134 daga á öryggisgangi með rýmkun og að lokum í 413 daga á svokölluðum milligangi sem féll undir öryggisgang í svari til umboðsmanns Alþingis.

Í fyrirspurn mbl var spurt hvort langtímavistun sjúklinga á öryggisgangi varpaði ljósi á ágalla í geðheilbrigðiskerfinu. Í skriflegu svari Landspítala kemur fram að undanfarin ár verði sífellt algengara að sjúklingar réttargeðdeildar bíði mánuðum saman eftir viðeigandi úrræðum. Segir þá einnig að ábyrgðin hvíli á sveitarfélögum og í sumum tilfellum félagsmálaráðuneyti.

Um þvingun að ræða þegar öryggisgangur er notaður

Öryggisgang réttargeðdeildar á að nota í þeim tilfellum þar sem tryggja þarf öryggi sjúklings, samsjúklinga og/eða starfsmanna. Getur þá öryggisógn skapast vegna ofbeldis og/eða sjálfsvígshættu.

Fram kemur í svari Landspítala að ekki sé í öllum tilfellum nauðsynlegt að færa sjúkling á öryggisgang þó svo að hann sé metinn í sjálfsvígshættu eða þegar um ofbeldi sé að ræða. Geta mildari aðferðir oft reynst nóg til að afstýra ógn, eins og að ræða við sjúkling, veita nærveru og stuðning eða auka lyf til að róa sjúkling og bæta líðan.

„Í þeim tilfellum þegar sjúklingur er færður á öryggisgang er um þvingun að ræða og gæta þarf sérstaklega að hagsmunum sjúklings á meðan hann dvelur á ganginum. Geðskoðun og mat á ofbeldisáhættu er gerð daglega eða oftar. Regluleg geðskoðun er því lykilþáttur í því að gæta hagsmuna sjúklinga sem þar dvelja en mat á líðan, hegðun og ástandi sjúklings er nauðsynlegt til að geta veitt honum aukið frelsi í formi rýmkunar.“

Öryggisgangur

Í svari Landspítala við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis er aðstæðum á öryggisgangi lýst.

Þegar sjúklingur dvelur á öryggisgangi án rýmkunar hefur hann eingöngu leyfi til að hafa hjá sér eitt sett af fötum til skiptanna. Annað er tekið og sett í geymslu. Til að byrja með er öryggisgangur alltaf læstur og tveir starfsmenn annast sjúkling og dvelja hjá honum. Sjúklingur borðar í herbergi sínu með plasthnífapörum. Hann hefur ekki leyfi til að fá til sín óþarfa persónulega muni eða hluti sem hægt er að nota til að skaða sjálfan sig og aðra.

Símhringingar eru ekki leyfðar nema í lögfræðing/lögráðamann fyrr en meðferðaraðilar hafa metið það öruggt út frá ástandi sjúklings. Vakthafandi hjúkrunarfræðingur tekur ákvörðun hverju sinni út frá ástandi sjúklings hvort hann geti farið út að reykja undir eftirliti.

Rýmkun er veitt þegar líðan sjúklings batnar og öryggisógn minnkar. Dæmi um rýmkun er að hafa öryggisgang ólæstan, hafa dyr milli ganga opnar, færa sjúkling á milligang, fækka starfsmönnum sem dvelja með sjúklingi, veita sjúklingi frammiveru í almennu rými og/eða útiveru í fylgd starfsmanna í lokuðum garði. Auk þess fær sjúklingur í auknum mæli afnot af tölvu, síma og persónulegum munum, og heimsóknir frá sínum nánustu.

mbl.is