„Alltaf mikilfengleg sjón“

Hvalurinn sem fannst rétt fyrir hádegi.
Hvalurinn sem fannst rétt fyrir hádegi. Ljósmynd/Grétar Ingi Erlendsson

Stór skíðishvalur fannst í fjörunni Skötubót, austan við byggðina í Þorlákshöfn rétt fyrir hádegi.

Íbúi í bænum gekk fram á hræið og hafði samband við Grétar Inga Erlendsson, sem er formaður bæjarráðs Ölfuss. Í framhaldinu dreif hann sig niður í fjöru og tók meðfylgjandi ljósmyndir.

„Þótt maður hafi séð svona áður er alltaf jafnmerkilegt að sjá þetta svona á þurru landi,“ segir Grétar Ingi, sem skýtur á að dýrið sé að minnsta kosti 14 metra langt.

Ljósmynd/Grétar Ingi Erlendsson

„Ef gúgglið er rétt er þetta sandreyður, sem er ekki algeng sjón í þeim hvalaskoðunarferðum sem við höfum verið að fara í. Þar er algengara að sjá hrefnur og hnúfubaka en þetta er alltaf mikilfengleg sjón,“ bætir hann við.

Aðspurður segist Grétar Ingi starfa hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Black Beach Tours sem hefur boðið upp á ribbátaferðir, þar sem hvalir eiga það til að sjást.

Búið er að láta lögregluna vita af hvalrekanum.

Ljósmynd/Grétar Ingi Erlendsson

Grétar Ingi bætir við að hvalrekar verði af og til í nágrenni Þorlákshafnar, síðast árið 2019 þegar búrhvalshræ fannst í landi Hrauns í Ölfusi. Hann kveðst síður en svo vera sérfræðingur í hvölum en telur að þessi sem fannst í morgun hafi drepist fyrir um þremur dögum. 

mbl.is