Ekki ætlunin að segja prestum upp

Frá kirkjuþingi.
Frá kirkjuþingi. Ljósmynd/Þjóðkirkjan

Kirkjuþingi októbermánaðar lauk í dag en ein af niðurstöðum þingsins var að framlengja tímabundna stöðvun nýráðninga þjóðkirkjunnar til áramóta.

„Það á eftir að semja starfsreglur og það er eiginlega ekki hægt að auglýsa stöður fyrr en reglur um það hvernig starfið á að vera eru klárar,“ segir Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings.

Hún segir að prestar þurfi ekki að vera uggandi um sín störf þó að þjóðkirkjan þurfi að halda sig innan fjárhagsáætlunar.

„Við fáum bara ákveðið fjármagn frá ríkinu og við verðum að reka þjóðkirkjuna innan þess ramma.“

Geta prestar sem starfa hjá Þjóðkirkjunni núna verið öruggir með sitt starf?

„Það held ég en þeir eru náttúrulega bara komnir undir þann hatt að það er hægt að segja þeim upp með 3 mánaða fyrirvara. Það er enginn í þannig stöðu að hann geti verið alveg öruggur um sitt starf. Það er aldrei hægt að gulltryggja eitt eða neitt en alla vega er það ekki ætlunin að fara að segja fólki upp.“

Í nóvembermánuði heldur kirkjuþing svo áfram en öll þau mál sem þurfti að klára í október voru afgreidd á þessu þingi. „Svo höfum við líka tækifæri til að koma saman í mars,“ segir Drífa. 

Á eftir að ákveða hvernig verður hagrætt

Fjárhagsnefnd Þjóðkirkjunnar vinnur nú að fjárhagsáætlun. 

„Það verður tekið fyrir í nóvember. Það er ekki verið að tala um að segja upp en við vitum að það eru alltaf einhverjir sem fara á eftirlaun og annað þess háttar. Það á alveg eftir að ákveða hvernig verður hagrætt. Sumar stöður verður að ráða í aftur en það á alveg eftir að fara í gegnum það hvað er nauðsynlegt og hvað er ekki,“ segir Drífa. 

Á þinginu sem lauk í dag var samþykkt að Þjóðkirkjan, með stórum staf, yrði heiti Þjóðkirkjunnar. Vinnuheitið Þjóðkirkjan - Biskupsstofa hafði verið í notkun fram til þessa. 

Á þinginu var kosið í framkvæmdanefnd Þjóðkirkjunnar sem tekur til starfa um áramótin og samhliða fellur Kirkjuráð niður. Anna Guðrún Sigurvinsdóttir er formaður nefndarinnar en í henni sitja einnig Skúli Ólafsson og Einar Már Sigurðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert