Óljóst hvenær athugað er með byrlun

Ekki er ljóst hve oft blóðsýni vegna byrlunar hafa verið …
Ekki er ljóst hve oft blóðsýni vegna byrlunar hafa verið send í greiningu frá bráðamótttökunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki virðast liggja fyrir gögn um það hve oft blóðsýni hafi verið send af Landspítalanum í greiningu vegna gruns um byrlun, að því er fram kemur í svari spítalans við fyrirspurn mbl.is.

Blóðsýni eru ekki send frá bráðamótttöku LSH á rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði til að staðfesta byrlun nema að beiðni lögreglu eða af neyðarmóttöku, að því er fram kemur í svari LSH en ekki kemur fram hvort gögn þess efnis liggi fyrir eða hve mörg sýnin eru þótt mbl.is hafi innt eftir slíku.

Byrlun kom sífellt oftar fyrir

Árið 2018 vann ríkislögreglustjóri samantekt úr kerfum lögreglu sem sýnir fjölda tilvika þar sem lögregla bókaði mögulega byrlun í málum – slíkum málum fjölgaði ár frá ári á árunum 2007 til 2017, eða úr 16 málum í 78 mál. Þó hefur enn sem komið er aldrei verið ákært fyrir byrlun að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur héraðssaksóknara. 

Í samantektinni, sem var unnin fyrir dómsmálaráðuneytið að fyrirspurn þingmanns Pírata, var stuðst við þá aðferð að telja hve oft orðið „byrlun“ kom fram í málaskrá lögreglu, þar sem byrlun var ekki skráð í málaskrárkerfi lögreglu sem sérstakt frumbrot. Þar sem verklagsreglur á þessu sviði fyrirfundust ekki kom fram í svari ráðuneytisins að hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefðu legið fyrir drög að verklagsreglum, þar sem lögð væri áhersla á að bæta skráningu þessara tilvika.

Málum þar sem orðið byrlun kom fyrir fjölgaði mikið á …
Málum þar sem orðið byrlun kom fyrir fjölgaði mikið á árunum 2007 til 2017, en skráningu þessara brota var og er ábótavant. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alltaf í höndum brotaþola að kæra“

Rík áhersla virðist lögð á að brotaþolar leggi fram ákæru til þess að spítalinn, neyðarmóttakan eða lögreglan gangi úr skugga um hvort um byrlun ólyfjanar sé að ræða, að því er má lesa úr svörum Landspítalans, en það verklag hefur sætt gagnrýni.

Hversu oft hefur spítalinn náð að staðfesta að einstaklingi hafi verið byrluð ólyfjan, eða að minnsta kosti áætla að sterkar líkur séu á slíku?

„Það hafa komið tilfelli þar sem brotaþolar telja að sér hafi verið byrlað eitthvað og þá er það skráð. En það er alltaf í höndum brotaþola að kæra og svo lögreglu að rannsaka og staðfesta.“

Getur spítalinn greint blóðsýni í þeim tilgangi í að áætla hvort einstaklingi hafi verið byrlað eitthvað eða þarf að greina þau erlendis? Ef svo er, hvers vegna?

„Rannsóknakjarni LSH getur mælt etanól og metanól í blóði og skimað þvagsýni fyrir helstu fíkniefnunum. Þessar rannsóknir eru gerðar í klínískum tilgangi (þ.e. til greiningar og meðferðar sjúklinga). Ef greina á fíkniefni eða önnur efni sem hluta af lögreglurannsókn eru sýnin send til rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði,“ segir í svari LSH en sú rannsóknastofa sér um réttarlæknisfræðilegar eiturefnamælingar á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert