Stefna á staðnám í næstu í viku

Olga Lísa Garðarsdóttir skóla­meist­ari FSu.
Olga Lísa Garðarsdóttir skóla­meist­ari FSu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sex smit hafa greinst meðal starfsfólks Fjöl­brauta­skóla Suður­lands. Stefnt er að því að hefja staðnám í næstu viku. Þetta segir Olga Lísa Garðars­dótt­ir, skóla­meist­ari  FSu, í samtali við mbl.is.

Erfitt að finna uppruna smitanna

Spurð hvort búið sé að rekja uppruna smitanna segir Olga það vera erfitt. „Við erum í rosa vandræðum með það. Það er mjög erfitt að finna upprunann.“

Kennarar undirbúa nú fjarnám fyrir morgundaginn og föstudaginn en Olga vonast til að venjulegt skólahald geti hafist í næstu viku.

„Við verðum að sjá til hvort að við höfum komist fyrir vind um helgina og getum hafið skólastarf í staðnámi eftir helgi. Kannski dregst það fram á þriðjudag þar sem að margir klára sóttkví á mánudaginn.“

Eru fljótari en smitrakningarteymið að rekja smit

Olga segir sex virk smit vera meðal starfsmanna og 140 nemendur vera óbeint eða beint í sóttkví. Vel yfir hundrað nemendur fóru í hraðpróf í dag. Spurð hvort mikið álag hafi verið á henni við að rekja smitin segir hún svo vera en kvartar ekki yfir því.

„Ég hef varla staðið upp í dag en ég held að við séum fljótari en smitrakningarteymið að rekja smitin þar sem við erum með aðgang að gögnum sem smitrakningateymið kemst ekki í. Því finnst mér eðlilegt að við séum með puttann í þessu, þótt að þetta sé mikil vinna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert