Vilji ræða við menn og finna lausnir

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við horfum á þetta þannig að við séum bara að fara í heimsóknir.“ Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á blaðamannafundi í dag þar sem samstarfsverkefnið Örugg búseta fyrir alla var kynnt.

„Við munum bara banka upp á hjá öllum atvinnuhúsnæðum og fara yfir hlutina með mögulegum íbúum þeirra. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita í hvaða atvinnuhúsnæðum er búið, við hvaða aðstæður fólk býr og hvernig brunaöryggi er á hverjum stað fyrir sig.“

Segir að breyta þurfi lögum um brunavarnir

Tilgangur heimsóknanna segir hann vera að kanna hve margir búa í atvinnuhúsnæði í borginni, hvar þeir búa, við hvaða aðstæður og hvort brunavarnir í húsnæðinu séu fullnægjandi.

„Þetta er bara samtal sem við tökum við eigendur þessara húsnæða og íbúa og saman finnum við einhverjar lausnir. Það er þó mjög mikilvægt að undirstrika það að meirihluti þessara atvinnuhúsnæða sem við vitum af í dag eru algerlega til fyrirmyndar.“

Stór hluti verkefnisins felist einnig í því að hafa áhrif á löggjafarvaldið, það er að fá lögum og reglugerðum breytt þannig að slökkviliðinu sé kleift að vinna vinnuna sína betur.

„Þetta snýst ekki bara um atvinnuhúsnæði en einhverstaðar þurfti að byrja og einhvernvegin þurfum við að safna gögnum til að reyna hafa áhrif. Við skynjum að það er vilji hjá yfirvöldum að gera breytingar í þessum efnum.“

Til umræðu að beita sektargreiðslum

Spurður segir Jón ýmsar tillögur hafa veri lagðar fram um það hvernig hvetja megi eigendur atvinnuhúsnæða til að gæta betur að brunavörnum. Ein þeirra sé að beita sektargreiðslum eins og tíðkast við brot á annarskonar reglum.

„Við höfum ekki ríkar sektarheimildir í dag. Við höfum heimild til að beita dagsektum sem er dálítið þungt úrræði en aftur á móti í þeim flöggum og skýrslum unnið hefur verið að í kringum þetta, þá er ein af tillögunum að veita slökkviliðinu heimild til þess að beita sektum. Svipað og þú ferð yfir á rauðu ljósi þá færðu sekt.“

Fræðsla skipti þó ekki síður máli. Sér í lagi fræðsla um ábyrgð eigenda atvinnuhúsnæða.

„Fræðsla um það hva góðar brunavarnir eru eru góðar brunavarnir og hvaða ábyrgð eigandinn sjálfur ber. Okkur finnst ósköp sjálfsagt að fara með bílinn okkar í skoðun og þegar við breytum bílinn förum við með hann í breytingarskoðun. Vonandi verður það eins sjálfsagt með húsnæðin eins og með bílana í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert