Hræið líklega urðað í fjörunni

Hvalinn rak land í fjörunni Skötubót.
Hvalinn rak land í fjörunni Skötubót. Skjáskot/Donatas Arlauskas

Líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun telur við fyrstu sýn að hvalurinn sem fannst í fjörunni Skötubót, austan við byggðina í Þorlákshöfn í gær, sé lítil langreyður.

Í gær giskaði formaður bæjarráðs Ölfuss á að þetta væri sandreyður.

Sverrir Daníel Halldórsson líffræðingur var rétt byrjaður að skoða hvalinn þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann sagði hvalinn enn að hluta til í sjónum og að það flæddi upp að honum. Virkaði hann ferskur að sjá.

Hefðbundnar mælingar á holdarfari og sköpulagi hvalsins verða gerðar og sýni tekin.

Sökkva yfirleitt 

Spurður sagði Sverrir Daníel ekki algengt að langreyðar reki upp í fjöru svona ferskar. Hann sagði gömul hræ áður hafa uppgötvast en að þetta sé hvalategund sem sökkvi þegar hún drepist. Aftur á móti fljóti hnúfubakurinn yfirleitt, svo dæmi sé tekið.

Hann kvaðst ekki vita hvað kom fyrir hvalinn en sagðist ekki hafa séð neina áverka. 

Hvað framhaldið varðar þegar kemur að hræinu benti Sverrir á Umhverfisstofnun og sveitarfélagið Ölfus, sem taka lokaákvörðunina. Hann telur þó líklegt að það verði urðað í fjörunni, sem er sandfjara.

Hvalurinn sem fannst í gær.
Hvalurinn sem fannst í gær. Ljósmynd/Grétar Ingi Erlendsson

Fyrsti kostur að urða í fjörunni

Ísak Már Jóhannesson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að unnið sé eftir verklagsreglum þegar kemur að hvalrekum. „Við höfum samræmingarhlutverk en komum ekki beint að aðgerðum,“ segir Ísak Már.

Hvað urðun hræsins varðar segir hann fyrsta kost að urða hvalshræ í fjörunni á staðnum, annars er gott að urða þau á heppilegum stað í nágrenninu. Ef aðgengi er erfitt í fjörunni er síðasti kosturinn að draga hræin út og sökkva þeim eins og gert var á Ströndum þegar grindhvalavaðan kom þar í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert