Ók á hross við Kjalarnes

Kjalarnes.
Kjalarnes. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögregla hafði afskipti af ökumanni sem ók á hest í gærkvöldi á Vesturlandsvegi við Kjalarnes. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án ökuréttinda.

Ekki urðu slys á fólki en hesturinn var mikið slasaður. Eftir að lögregla hafði lokið afskiptum sínum af ökumanninum var bíll hans dreginn burt en þá kom í ljós að fleiri hross væru á veginum sem sæjust illa í myrkrinu. Lögregla smalaði því hrossunum saman og færði í girðingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir einnig að afskipti hafi verið höfð af ölvuðum manni í stigagangi í Breiðholti, sem var að áreita konu sem býr í húsinu. Manninum var vísað burt af lögreglu.

Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Hlíðunum í gærkvöldi grunaður um eignaspjöll og rúðubrot. Hann gistir nú í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna.

Svo var bifreið stöðvuð í Laugardalnum í gærkvöld eftir að lögregla hafði séð ökumann bakka á kyrrstæða bifreið og aka svo á brott. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Loks var ökumaður stöðvaður fyrir hraðakstur á Álftanesvegi síðdegis í gær enda keyrði hann á 113 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 70 km/klst. Ökumaðurinn neitaði fyrir brotið en skýrsla var rituð um málið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert